153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég var byrjuð áður en fundi var slitið í nótt að fara yfir 7. gr. frumvarpsins, sem ég hef sagt nokkrum sinnum að sé mitt „uppáhaldsákvæði“ í frumvarpinu. Þarna er um gríðarlega alvarlega skerðingu á réttaröryggi flóttafólks að ræða en ég held að það geri sér ekki allir grein fyrir því þegar þeir lesa ákvæðið. Þarna er verið að setja inn í lögin nýtt ákvæði, sem er ekki í lögunum fyrir, um svokallaðar endurteknar umsóknir. Eins og staðan er í dag er ekkert sérstakt ákvæði í útlendingalögum um endurteknir umsóknir en það er heimild til að setja slíkar umsóknir í svona hálfgerða flýtimeðferð sem ætti svo sem að nægja að mati þeirra sem hér stendur. Það sem gerir þetta ákvæði svo alvarlegt er að það snýst ekki bara um endurteknar umsóknir, þ.e. þegar einstaklingur hefur fengið synjun og kemur kannski aftur og sækir um aftur eða sækir bara um aftur áður en hann fer. Það er líka verið að tala um og inn í þetta er grautað einu mikilvægasta réttarúrræðinu og einu virkasta réttarúrræðinu fyrir flóttafólk á Íslandi, sem er kannski ástæðan fyrir því að það er verið að afnema það; beiðni um endurupptöku máls vegna nýrra gagna eða vegna breyttra forsenda, svo sem vegna þess að tímafrestir hafa runnið út.

Í frumvarpinu eru farnar margar leiðir til þess að reyna að eyðileggja þessa tímafresti og þetta er ein af þeim og fleiri leiðir eru í 8. gr. Ég mun fara í það þegar þar að kemur. En í 7. gr. frumvarpsins er óvirkjuð almenn grein almennra stjórnsýslulaga um heimild fólks til að fá heimild stjórnvalda til að endurupptaka mál. Raunar er það skylda stjórnvalda. Þetta er heimild borgarans, réttur borgarans til að fá mál sitt endurskoðað ef eitthvað hefur breyst. Það er áratugalöng úrskurðarframkvæmd og fræðaskrif um beitingu þessa ákvæðis, sem er 24. gr. stjórnsýslulaga, um endurupptöku, þannig að þetta ætti ekki að valda neinum vandkvæðum í framkvæmd. Beiðnum um endurupptöku hefur fjölgað gríðarlega undanfarið en það má ætla að þeim muni fækka aftur nú þegar Covid-heimsfaraldurinn er að þessu leytinu hættur að vera stjórnsýslunni til trafala. Því er þetta ákvæði ekki bara gríðarleg alvarleg aðför að réttaröryggi flóttafólks heldur líka úrelt núna strax, um leið og það var í rauninni sett inn í þetta frumvarp, og vitagagnslaust til að taka á nokkrum þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í kerfinu.

Í því sambandi langar mig að leiðrétta eitt sem hefur komið fram hérna nokkrum sinnum þegar við kvörtum undan því að fá ekki samtal við meiri hlutann um þetta mál. Þá er bent á það að þetta mál sé að koma fram í fimmta skipti. En þetta er ekki sama málið. Við tölum um þetta sem sama frumvarpið vegna þess að rauði þráðurinn í því er sá sami, rauði þráðurinn í þessu frumvarpi, forsendurnar eru þær sömu og það er það sem er rangt. Það er það sem þessi frumvörp eiga sameiginlegt. Málið hefur hins vegar breyst heilmikið í hvert skipti sem það kemur út og virðist það svolítið velta bara á dagsformi Útlendingastofnunar og dómsmálaráðuneytisins hverju er hent inn og hvað tekið út. Til dæmis átti að setja inn heimild til að þvinga fólk til líkamsrannsókna, bara út af Covid-heimsfaraldrinum, en svo þurfti það ekki lengur og þá hætta þau við það. Þetta er allt svolítið svoleiðis.

En það sem er verið að gera í þessari grein, svo ég haldi mig við efnið, er að það er verið að afnema réttinn til endurupptöku. Ég hefði haldið að það „vandamál“ að beiðnir um endurupptöku séu margar væri ekkert vandamál vegna þess að ef beiðnin er augljóslega byggð á engu tekur enga stund að afgreiða hana. Það er ekki þannig að það þurfi að fara yfir málið frá grunni aftur. Þegar beðið er um endurupptöku kemur fólk með ný gögn, þessi nýju gögn eru tekin og kíkt á þau: Ókei, gefur þetta tilefni til að endurtaka málið, nei eða já? Þetta er ekki flókin málsmeðferð, hún er ekki þung. Það er yfirleitt auðvelt að segja bara nei ef það eru engin ný gögn og ekkert sem hefur breyst. Þetta ætti ekki að íþyngja stjórnsýslunni að neinu leyti. Það hefur bara verið að íþyngja stjórnsýslunni vegna þeirra viðhorfa sem hafa verið viðhöfð í afgreiðslu þessara mála og eðlilegra vegna þess að þetta hafi verið tímafrestamál. Hitt er að ef verið er að endurupptaka, ef verið er að fallast á endurupptöku í mjög mörgum þessara mála, (Forseti hringir.) sem ég held að sé líka tilfellið, bendir það þá ekki til þess að það sé talsvert verið að taka ákvarðanir á röngum forsendum hérna og að það sé það (Forseti hringir.) sem við eigum að leysa frekar en að svipta fólk réttinum til þess að fá ákvörðunina leiðrétta? Ég er á þeirri skoðun. — Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.