153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég sé að ég hef gleymt mannréttindayfirlýsingunni hér í síðustu heimsókn minni uppi í ræðustól. Það er spurning hvort ég ætti að lesa hana alla aftur, en ég ætla nú að ekki að gera ykkur það. Eitt af því sem ég hef fengið eiginlega daglegar spurningar um, frú forseti, er það hvort stjórnarskrá Íslands gildi um útlendinga. Það er alveg á hreinu að hún gildir um alla þá sem eru í íslenskri lögsögu, sem þýðir á íslenskri grund eða á íslensku — er það ekki rétt munað hjá mér að það séu 12 mílurnar sem skilgreinast sem lögsaga? (Gripið fram í: Það er meira haf.) Nei, það er svo, held ég, haf — alla vega. Við getum fengið einhverja þjóðréttarfræðinga til að koma með leiðréttingar um það einhvers staðar á samfélagsmiðlum. En alla vega þá gildir það þannig að reglurnar, lögin gilda og stjórnarskráin gildir fyrir alla þá sem eru á Íslandi, alveg sama hvort þeir eru að sækja um vernd eða að koma hingað sem ferðamenn. Það væri nú slæmt t.d. ef lögin okkar giltu ekki um ferðamennina. Þeir mættu bara keyra eins hratt og þeir vildu af því að lögin segðu að Íslendingar einir þyrftu að keyra á innan við 90 km hraða. Já, stundum er gott að gera þetta svolítið einfalt. En það er líka mikilvægt að átta sig á því að mannréttindasáttmáli Evrópu hefst á 1. gr. og 1. gr. fjallar um skylduna til að virða mannréttindi. Hún hljómar svo, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar skulu tryggja hverjum þeim, sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst, réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í I. kafla þessa samnings.“

Já, frú forseti, hér stendur alveg svart á hvítu að mannréttindi gilda fyrir alla sem á Íslandi eru, alla sem eru okkar yfirráðasvæði. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að það þýðir að það eru ákveðin réttindi og ákveðnar skyldur sem við sem þjóð höfum, einnig þegar kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd. Það eru margs konar réttindi og frelsi sem við þurfum að virða samkvæmt þessum I. kafla í mannréttindasáttmálanum; hlutir eins og rétturinn til lífs, bann við pyndingum, bann við þrældómi og nauðungarvinnu, réttur til frelsis og mannhelgi, rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, að það sé engin refsing án laga. Ég nefndi áðan friðhelgi einkalífsins og fjölskyldu en þarna fellur líka undir hugsana-, samvisku- og trúfrelsi. Já, ég get ekki bannað hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að trúa á eitthvað eða ekki trúa á eitthvað. (Gripið fram í.) Það er líka tjáningarfrelsi, funda- og félagafrelsi, réttur til að stofna til hjúskapar, réttur til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, bann við mismunun, skerðing réttinda á hættutímum, skorður við stjórnmálaumsvifum útlendinga, bann við misnotkun réttinda og takmörkun á skerðingu réttinda.

Allt eru þetta kaflar, allt frá 2. til 18. gr. mannréttindasáttmálans, sem hafa áhrif á það hvernig við eigum að sinna og virða réttindi sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá á Íslandi. — Frú forseti. Þar sem það er dagsbirta þá langar mig að fara í nokkrar af þessum greinum. Ég óska því eftir því að komast aftur á mælendaskrá.