153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við vorum tala um kærufrestinn og umsögn Rauða krossins á Íslandi þar sem gerð er athugasemd við 2. gr., um sjálfkrafa kæru. Þar er farið yfir vandann við það að breyta lögunum á þann hátt að stytta kærufrestinn sem umsækjendur hafa; í fyrsta lagi að ákvarðanir Útlendingastofnunar eru birtar umsækjendum á íslensku, og allt sem því fylgir, og Útlendingastofnun hefur einfaldlega vanrækt rannsóknarskyldu sína, sem er stórkostlega merkilegt að hún komist upp með lagalega séð — en allir þessir aðilar eru yfirleitt komnir til útlanda og geta ekki sótt rétt sinn og þar af leiðandi sleppa stjórnvöld alltaf við að það sé slegið á puttana á þeim. Umsækjendur þurfa þar af leiðandi að nýta kærufrestinn til að bæta upp þessa vanrækslu stjórnvalda á rannsóknarskyldu sinni svo að öll nauðsynleg gögn geti legið fyrir og talsmaður geti fjallað sérstaklega um þau í greinargerð á kærustigi. Þannig að þessi frestur er styttur með sjálfkrafa kærunni. Hann er þá frá því að Útlendingastofnun er búin að taka ákvörðun sína og fólk hefur 14 daga til að kæra. Almennur kærufrestur er mun lengri, allt að þrír mánuðir, þ.e. almennur frestur samkvæmt stjórnsýslulögum til að kæra. En núna gerist það sem sagt um leið og Útlendingastofnun er búin að skila af sér 10–20 bls. ákvörðun sinni á íslensku til talsmanns umsóknaraðila, sem hefur t.d. verið bent á að nær ekki að vera í vinnunni allan ársins hring, það eru sumarfrí o.s.frv. Þessi mál taka tíma og ef þau detta óvart inn þegar viðkomandi er í fríi þá bætast þeir dagar við, svo einfalt er það.

Til samanburðar er kærufrestur í Noregi og Svíþjóð í sambærilegum málum um 21 dagur frá birtingu ákvörðunar. Hann er meira að segja styttri hérna núna í dag og verður enn styttri þegar þetta frumvarp verður samþykkt og samt er talað um að verið sé að horfa til Norðurlandanna til að vera einhvern veginn sambærileg þeim. Maður veltir því fyrir sér af hverju þau gera þá ekki bara afrit, einfalt, klippa og líma, og setji bara þýðingu á þessu í lögum hinna landanna í okkar lög, ef þeim er svona annt um að herma eftir þeim. Ekki að það sé endilega góð hugmynd, en þá yrði það alla vega rökstutt — eða vonandi, það er ekkert rosalega vel rökstutt hérna og í rauninni er snúið út úr ýmsu og bara sagt að þetta sé skilvirkni og réttarbót og mannúð o.s.frv. En þegar það er skoðað nánar hvernig framkvæmdin er í raun og veru kemur í ljós að það er bara alls ekki svo. Ég held að ráðuneytið nýti sér það dálítið að fólk þekki almennt séð ekki hvernig ferlið virkar svona bak við tjöldin, að smáatriðin sem þarf að standa í, eins og að þýða 10–20 bls. niðurstöðu Útlendingastofnunar o.s.frv., sjást ekki, að fólk skilji ekki almennt hvernig það virkar og það sé bara hægt að segja: Nei, heyrðu, ég er að gera þetta — og það bæti skilvirknina á einhvern hátt, án þess að það sé útskýrt nánar með því að segja að áður fyrr hafi þurft að gera þetta og þetta en með breytingunni þurfi bara að gera þetta og þetta og það sé stytting fyrir alla og réttarbót fyrir umsækjanda af því að … Og svo er það útskýrt frekar. Það er ekkert svoleiðis, það er ekki einu sinni reynt. Það er bara fullyrt: Þetta er í þágu skilvirkni og í þágu þess að gera eins og aðrar þjóðir. Það er ekki útskýrt nákvæmlega hvað við erum að gera eins og aðrar þjóðir, hvaða öðrum þjóðum við erum að herma eftir, af því að þetta er gert mismunandi hjá Evrópuþjóðunum og á Norðurlöndunum. Það er ekki hægt að segja bara að við ætlum að gera eins og þau og láta eins og það sé næg útskýring. Það verður að segja t.d.: Við ætlum að gera eins og Noregur af því að þeim hefur tekist vel í nákvæmlega þessu ferli þar sem þarf að gera þetta og þetta samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna eða stjórnarskránni og við þurfum að passa upp á það. Norðmenn breyttu því úr þessu í eitthvað annað og það virkaði vel fyrir alla aðila. Nei, ekkert svoleiðis einu sinni reynt. (Forseti hringir.) — Ég þarf að halda áfram að fara yfir þessa umsögn, þannig að ef ég fengi að fara aftur á mælendaskrá væri það vel þegið.