153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er hérna að fara yfir umsögn Rauða krossins sem er síðasta umsögnin í bunkanum. Þetta eru aðalatriðin í þessari umsögn en þau eru samt ansi mörg, þetta eru alveg tvær blaðsíður bara af punktum um umsögnina, án þess að ég fari nánar í hana. Ég geri það kannski seinna ef þetta fer ekki að síast inn hjá stjórnarmeðlimum. Ef þau heyra ekki og trúa ekki að þetta sé í rauninni heiðarleg yfirferð á umsögninni þá þarf kannski bara að lesa hana upp orðrétt til að þau átti sig á henni, fara í samlestur.

En við erum komin í 4. gr. frumvarpsins, sem Rauði krossinn fjallar um, um öflun vottorðs frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis umsækjenda. Rauði krossinn segir að þetta feli í sér víðtækt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks og þurfi ákveðin skilyrði því að vera uppfyllt svo lagasetning sem þessi standist stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar. Frumskilyrði varðandi takmarkanir sem eru settar á friðhelgi einkalífs eru í fyrsta lagi að þær séu reistar á skýrri lagaheimild, í öðru lagi að þær stefni að lögmætu markmiði og í þriðja lagi að þær gangi ekki lengra en nauðsynlegt er svo markmið þeirra náist. Þetta eru bara viðmiðin, skilyrði sem þarf að uppfylla og stjórnvöld þurfa að rökstyðja lagasetningu sína með tilliti til þessa. Í stjórnarskrá og í mannréttindasáttmála Evrópu, sem stjórnarskráin okkar og þau mannréttindaákvæði sem þar eru byggja á, er miðað við að aðeins sé gripið til takmarkana á friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra og stefnt er að því að firra glundroða eða glæpum eða það er í þágu almannaheilla auk þess sem það kann að vera í þágu þjóðaröryggis. Það er mat Rauða krossins á Íslandi að umrædd heimild til að afla gagna uppfylli ekki þessi skilyrði og það hefur verið staðfest af Mannréttindadómstóli Evrópu, sem var farið yfir varðandi hollenska dóminn í fyrri umsögn.

Samt er verið að reyna þetta og það er einhvern veginn verið að reyna þetta á þann hátt núna að meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er bara alveg sama hvaða umsagnir segja og hvað niðurstöður dómstóla hafa verið að segja um nákvæmlega þetta atriði, alveg sama: Hendum þessu bara í gegn. Eins og hefur komið fram hérna er það líklega vegna þess að þau munu komast upp með það, af því að þetta fólk hefur ekki tækifæri til að leita réttar síns. Til þess að geta farið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, til þess að skora þessi lög á hólm gagnvart mannréttindasáttmálanum þarf að klára öll úrræði á Íslandi fyrst, þ.e. fara í gegnum allt dómskerfið á Íslandi. Það er svolítið erfitt að gera ef þú ert ekki í landinu af því að það er búið að henda þér út. Ástæðan fyrir þessari breytingu er tímabundið ástand sem skapaðist vegna Covid og því verður ekki séð að slíkar aðstæður skuli leiða til þess að lögreglu verði fengin heimild til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum bara almennt séð. Þetta gæti hafa náðst sem tímabundin heimild út af sóttvarnaraðstæðum en ekki sem almenn heimild, bara til að reyna að koma þessu á mannamál.

Ég ætla að tala aðeins um þjónustuskerðingu í næstu ræðu þar sem það tekur því varla að byrja á henni núna, hún er það yfirgripsmikil.

En þetta varðandi vottorðið er eitthvað sem er ítrekað búið að segja. Það kom fram í umfjöllun minni að Læknafélagið fer skýrt yfir þetta, yfir þetta ákvæði, og segir bara hreint út að ef það þyrfti að kalla á einhverja rannsókn vegna útgáfu heilbrigðisvottorðs og viðkomandi samþykkir ekki slíka rannsókn þá yrði sú rannsókn aldrei framkvæmd nema að undangengnum dómsúrskurði. Hérna erum við síðan líka með ákvæði sem gætu leyft stjórnvöldum að túlka það þannig að viðkomandi væri ekki fús til þess (Forseti hringir.) að hjálpa til við vinnslu málsins og þau gætu þá sagt: Heyrðu, fyrst þú neitaðir að fara (Forseti hringir.) í þessa rannsókn ertu að tefja málið, þú ert ekki samvinnuþýður og þá ert þú bara að missa réttindi, bless. (Forseti hringir.) — Til þess að halda áfram yfirferð á þessari umsögn bið ég forseta vinsamlegast að setja mig aftur á mælendaskrá.