153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er enn að lýsa 7. gr. frumvarpsins, sem er ein alvarlegasta aðförin að réttaröryggi flóttafólks í þessu frumvarpi. Það eru ekki allir umsagnaraðilar sem spottuðu hvað er í gangi í þeirri 7. gr. Ég reyndi að lýsa því svona á einhvers konar mannamál hérna rétt áðan. Ég vona að það hafi skilist. Það sem er verið að gera er að verið er að svipta fólk réttinum til þess að fá mál sitt endurupptekið ef það hefur ný gögn til að styðja umsókn sína eða aðstæður hafa breyst, sem geta verið t.d. tímafrestir.

Ég ætla aðeins að lesa upp úr umsögn Rauða krossins, sem var eitt það félag sem sá hvað var þarna í gangi og gerir athugasemdir við það. Ástæðan fyrir því að þau reka augun í þetta og átta sig á því hverjar áætlanirnar eru þarna er auðvitað sú að Rauði krossinn hefur núna margra ára reynslu af því að sinna lögfræðilegri aðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd og hefur sannarlega ekki verið nein vanþörf á þó að því miður sé búð að gera mjög vondar breytingar á því kerfi, sem er svo sem efni í aðra ræðu. En það er ekki til umfjöllunar hér. Með leyfi forseta:

„Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna sem geri umsækjendum um alþjóðlega vernd kleift að fá ákvarðanir í málum sínum teknar upp að nýju á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga.

Samkvæmt ákvæðinu er 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (einnig vísað til sem ssl.)“ — við köllum þau stjórnsýslulög — „um endurupptöku ekki ætlað að gilda um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd. Rauði krossinn bendir á að stjórnsýslulög kveða á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar og að ákvæði í sérlögum geta ekki gengið framar þeim réttindum sem borgurum eru tryggð með ákvæðum laganna. Í 2. gr. ssl. eru ákvæði um gildissvið laganna gagnvart öðrum lögum. Samkvæmt 2. mgr. halda ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lögin mæla fyrir um, gildi sínu. Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi að lögunum segir enn fremur:

„Þau sérákvæði í lögum, sem gera minni kröfur til stjórnvalda, þoka hins vegar fyrir hinum almennu ákvæðum í lögum þessum. Í bók Páls Hreinssonar, Stjórnsýslulögin: skýringarrit, er þetta nánar skýrt með eftirfarandi hætti:

„Í samræmi við þá löggjafarstefnu sem fylgt hefur verið annars staðar á Norðurlöndum er í athugasemdum við frumvarp það sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 lögð á það áhersla að með frumvarpinu séu gerðar ákveðnar lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar. Þessi grundvallarregla verður jafnframt leidd með gagnályktun frá 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna. Á þeirri forsendu er á því byggt að málsmeðferð sé ekki óvandaðri en stjórnsýslulög mæla fyrir um. Vegna þessarar meginreglu er þess að vænta að sama löggjafarstefna verði tekin upp hér á landi og í nágrannalöndum okkar, þ.e.a.s. að löggjafinn setji ekki sérreglur í lög sem gera vægari kröfur til málsmeðferðar en leiðir af ákvæðum stjórnsýslulaganna nema veigamikil rök mæli með því.“

Ég ætla aðeins að staldra við hér. Hver eru rökin fyrir því að afnema þennan mikilvæga rétt útlendinga, rétt til að óska eftir endurupptöku máls vegna breyttra forsendna eða nýrra gagna? Rökin eru þau að það séu svo mörg mál. Það séu svo margar beiðnir um endurupptöku. Það fylgir svo sem ekki í greinargerðinni en sannarlega er það líka að það er fallist á svo margar beiðnir. Eru þetta veigamikil rök fyrir því að svipta fólk réttindum, að það þurfi mjög sýnilega á þeim að halda? Ég er ekki viss um að Páll Hreinsson væri kátur með þessa lagatúlkun. Með leyfi forseta:

„Þau sérákvæði í lögum sem gera minni kröfur til stjórnvalda þoka aftur á móti fyrir almennum ákvæðum stjórnsýslulaganna. Með minni eða vægari kröfum er í þessu sambandi átt við þau ákvæði sem mæla fyrir um málsmeðferð sem veitir aðila minna réttaröryggi en stjórnsýslulögin.“

Eina ferðina er ég fallin á tíma í miðri ræðu, en ég er komin með íslenska þýðingu á orðinu „cliffhanger“, en það er syllutryllir. (BLG: Sterkt.)