153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Enginn góður brandari er fyndinn tvö skipti í röð. Afsakið.

Ég var kominn í umsögn Rauða krossins á Íslandi, í 6. gr. Það er þjónustuskerðing 30 dögum eftir birtingu ákvörðunar. Hér er gott að athuga að það er líka verið að breyta því hvenær umsækjandi um alþjóðlega vernd telst ekki lengur vera umsækjandi.

Byrjum á þessu: Þjónustuskerðing 30 dögum eftir birtingu ákvörðunar. Það er verið að færa þennan tímafrest aðeins til líka. Fyrirséð er að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verði heimilislaus án framfærslu og njóti ekki grunnheilbrigðisþjónustu. Undantekningar eru vissulega vegna einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Eins og Rauði krossinn á Íslandi hefur bent á vanrækir Útlendingastofnun iðulega að rannsaka með fullnægjandi hætti hvort einstaklingar falli þar undir og túlkar það mjög þröngt, þetta klassíska nálarauga, túlkar lögin þröngt frekar en vítt eins og á að gera. Vafinn á sem sagt ekki að falla stjórnvaldamegin eða samkvæmt þröngri skilgreiningu. Vafinn á að falla hjá réttindum fólks. Alla vega endurmetur kærunefnd útlendingamála ekki mat Útlendingastofnunar, mjög áhugavert. Oftast fer þetta mat ekki fram með aðkomu þar til bærra sérfræðinga.

Við erum með dæmi sem var rakið fyrr í umræðunni um albanska konu sem var komin alveg að fæðingu, 36 vikur á leið. Álit ljósmæðra og lækna á Landspítalanum var að hún ætti ekki að fara í flug, mjög einfalt. Þá fær Útlendingastofnun bara álit trúnaðarlæknis síns sem gefur út nýtt vottorð — hún er nægilega hress til að fljúga, ekkert mál — án þess að hafa skoðað viðkomandi, bara væntanlega með því að skoða gögn: Já, 36 vikur. Já, hún er þetta gömul. Já, þetta er blóðþrýstingurinn. Já, já, þetta er fínt. Þessi málsmeðferð hefur verið kærð og málið er komið í skaðabætur. Þetta er það sem gerist þegar verið er að reyna að svindla og það næst að fara með þessi mál í gegnum dómstóla. Það er fyrirsjáanlegt að þessum málum muni fjölga, alla vega tækifærunum til þess — ja, ekki beint tækifærunum. Það gætu verið fleiri tækifæri ef fólk hefði yfirleitt tækifæri til að sækja sér þessi réttindi, sem er langt frá því að vera sjálfsagt.

Einstaklingar sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu en hafa ekki fengið viðurkenningu á því frá Útlendingastofnun búa bara við færri tækifæri til að yfirgefa landið innan þess knappa tímafrests sem er ætlað að gefa, 30 daga. Því er hætt við að þetta komi verst niður á þeim, fólki sem einfaldlega kemst ekki heim til sín, til Írans til dæmis. Það er ekkert ódýrt og þar af leiðandi lendir fólk mögulega í því að þurfa kannski að redda sér með aðferðum sem við viljum ekki sjá, glæpsamlegum aðferðum, ekki endilega glæpsamlegum aðgerðum umsækjenda heldur þeirra sem hagnýta sér neyð þeirra, sem brjóta þá í rauninni á þeim enn frekar eftir að íslenska ríkið er búið að skilja þau eftir í þessari stöðu. Allt þetta ferli er að mála upp þessa mynd. Allir þessir umsagnaraðilar eru að mála upp nákvæmlega sömu mynd.

Frumvarpið eins og það er komið hingað í umræðu til þingsins er bara ekki tilbúið. Það er alveg merkilegt ef maður pælir í því af hverju Píratar séu þeir einu sem benda á þetta aftur og aftur. Ég skora á fólk að hafa samband við flokkana sína á þingi og heyra í þeim um það af hverju fleiri flokkar eru ekki að vekja athygli (Forseti hringir.) á þessu. Það væri áhugavert að heyra svörin.

Ég á eftir að klára að fara yfir umsögnina þannig að ef forseti myndi vinsamlegast bæta mér aftur á mælendaskrá þá yrði það vel þegið.