Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég er enn og aftur ánægður með að vera hér í dagsbirtu með forseta. Mig langar aðeins að breyta til. Ég hef verið að fjalla um mannréttindasáttmála, ég hef verið að fjalla um barnasáttmála, ég hef verið að fjalla um sáttmála um réttindi fatlaðs fólks. En það er nú einu sinni þannig að síðar á þessu ári verða liðin 72 ár frá samþykkt samningsins um réttarstöðu flóttamanna en hann var gerður 1951. Hann verndar réttindi flóttamanna um allan heim og er í raun sá grunnur sem fjallar sérstaklega um það málefni sem þetta frumvarp fjallar um. Þess skal getið að þessi samningur og bókun sem var gerð við hann 1967, þar sem skilgreiningin á þeim sem þurfa alþjóðlega vernd var víkkuð, er hornsteinn allrar flóttamannaaðstoðar í dag. Það hefur verið unnið áfram í þessu og þetta var staðfest upp á nýtt árið 2018 með alþjóðlegri samþykkt.

Mig langar að byrja á því að fara aðeins í gegnum þennan sáttmála sem Ísland hefur staðfest og hefur verið lögfestur hér á landi. Ég ætla ekki að fara í gegnum hvern einasta lið, sérstaklega ekki öftustu liði samningsins sem fjalla um það hvernig ferðaskírteini eigi að líta út. Það gaman að rekast á svona skrýtnar skilgreiningar í samningum. En þegar ég er búinn að fara í gegnum þennan samning langar mig að tengja hann við þær athugasemdir sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerir við frumvarpið sem við fjöllum um hér.

Mig langar að byrja á að fjalla um samninginn sjálfan með því að tala um formálann áður en ég fer í að skilgreina nákvæmlega almennu ákvæðin. Í formálanum stendur:

Aðildarríkin álíta að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna og almenna mannréttindayfirlýsingin, sem samþykkt var af allsherjarþinginu 10. desember 1948, hafi staðfest þá meginreglu að allir menn skuli njóta mannréttinda og mannfrelsis án manngreinarálits.

Aðildarríkin álíta að Sameinuðu þjóðirnar hafi við ýmis tækifæri sýnt mikla umhyggju fyrir flóttamönnum og leitast við að tryggja þeim sem besta möguleika til þess að njóta mannréttinda og mannfrelsis.

Aðildarríkin álíta að æskilegt sé að endurskoða og sameina fyrri samninga þjóða í milli um stöðu flóttamanna, svo og með nýjum samningi að auka svið þessara samninga og vernd þá, sem þeir veita.

Aðildarríkin álíta að það geti lagt óhæfilega þungar byrðar á einstök lönd að veita mönnum griðland og að viðunandi lausn vandamáls, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa viðurkennt að sé alþjóðlegt að eðli og umfangi, fáist því ekki án samvinnu þjóða milli.

Aðildarríkin láta í ljós þá ósk að öll ríki, sem viðurkenna hið félagslega og mannúðlega eðli flóttamannavandamálsins, geri allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir að vandamál þetta verði ágreiningsefni milli ríkja.

Frú forseti. Þessi samningur gengur út á það að búa til ramma í kringum það hvernig við tökum á móti flóttamönnum og umsækjendum um alþjóðlega vernd og hvernig sú ábyrgð dreifist á löndin, þar á meðal Ísland. — Ég óska eftir því að vera settur aftur á mælendaskrá.