Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nú eru stjórnarflokkarnir búnir að halda þessu útlendingafrumvarpi á dagskrá lengur en elstu menn muna. Við erum búin að tala í þessari 2. umr., að mig minnir, í hátt í 60 klukkustundir. Það væri ánægjulegt ef þrjóska ríkisstjórnarinnar næði líka til mála sem skiptir fólkið í landinu einhverju að fari í gegn. Það væri skemmtileg tilbreyting ef ríkisstjórnin beitti hörðu við að koma í gegn góðum aðgerðum í þágu heilbrigðiskerfisins eða heimilanna eða til að bregðast við efnahagsástandinu eða hvað annað það er sem brennur á fólki í landinu. Ég held að þetta frumvarp, um að þrengja stöðu fólks á flótta, sé ekki sérstaklega hátt á lista hjá fólki í samfélaginu um hluti sem verði að klára með öllum þeim ráðum sem til eru. Þetta var nú kannski aðeins utan efnis málsins en ég vildi bara koma þessu frá mér vegna þess að það segir sitt um forgangsröðun stjórnarflokkanna að splæsa heilli þingfundaviku í þetta mál frekar en öll hin sem hefði verið hægt að ræða. Það segir sitt um forgangsröðunina að þessi þingsalur hafi ekki fjallað um neitt annað á þessu ári en útlendingafrumvarpið sem einfaldast væri að senda bara til nefndar til að vinna almennilega. Kannski finnst þeim þetta þægilegt. Kannski finnst þeim þægilegt að þurfa ekki að ræða eigin afglöp í efnahagsstjórn, eigin vanrækslu á heilbrigðiskerfinu, eigin axarsköft þegar kemur að því að svelta Landhelgisgæsluna. Það er kannski ágætt að fela sig á bak við þetta mál, kannski er það planið hjá ríkisstjórninni. En fyrirgefið, forseti, þessi útúrdúr er orðinn miklu lengri en hann átti að vera.

Mig langaði að taka upp þráðinn frá því rétt áður en fundi var slitið hér í gær, honum var slitið aðeins fyrr en ég hafði búist við og ég náði ekki að klára þá yfirferð sem ég var kominn af stað með þá. Þar var ég að renna yfir þær helstu breytingar sem hefðu verið gerðar á útlendingalögum frá því að þau voru samþykkt. Eins og forseta er kunnugt eru útlendingalög frá árinu 2016. Þau voru samin við dálítið óvenjulegar aðstæður í mjög þverpólitísku samráði. Það myndaðist bara samstaða um lögin og þó að þau séu ekkert fullkomin, og varla einu sinni hægt að kalla þau framsækin miðað við hvernig þau breyttu lagaumhverfinu frá því sem það var fyrir, voru þau alla vega skref í rétta átt á þeim tíma. Á þeim tíma þótti það dálítið merkilegt vegna þess að mörg önnur ríki voru að stíga skref í ranga átt. Það var að grípa um sig panik víða í Evrópu út af fólki á flótta sem varð til þess að þrengt var að réttindum þess víðs vegar á sama tíma og Ísland ákvað að viðhalda alla vega og jafnvel opna aðeins þann ramma sem var hér fyrir hendi. En frá þeim tíma hafa verið gerðar nokkrar breytingar á lögunum.

Þær breytingar sem eru efnislegar skiptast annars vegar í breytingar sem þrengja stöðu fólks á flótta og hins vegar breytingar sem snúast bara um að leiðrétta villur sem voru gerðar við lagasetninguna á sínum tíma. Ég var á fundinum í gær byrjaður að fara í gegnum þetta og búinn að nefna fyrstu tvær breytingarnar. Sú fyrsta var gerð áður en lögin tóku gildi. Með lögum nr. 124/2016 var sett inn bráðabirgðaákvæði þess efnis að þó að einstaklingur kærði niðurstöðu um brottvísun sína þá frestaði sú kæra ekki réttaráhrifum ef viðkomandi væri með það sem kerfið kallar bersýnilega tilhæfulausa umsókn eða kæmi frá öruggu ríki. Þetta fyrsta skref, eins og ég sagði, í átt til breytinga á útlendingalögum þrengdi stöðu fólks á flótta (Forseti hringir.) og gróf undan pólitísku sáttinni sem þessi lög byggðust upphaflega á. En meira um það síðar.