Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að fara hér yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi, var að fjalla um 8. gr., fyrsta griðland, þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að synja umsækjanda um efnismeðferð ef hann hefur náin fjölskyldutengsl við ríki sem hann hefur jafnvel aldrei komið til. Umsögnin fjallar um að ákvæðið sé of óskýrt, of víðtækt og geri of litlar kröfur um vernd í móttökuríki og til mats á aðstæðum þar. Þetta er það sem ég var að reyna að lýsa áðan, þ.e. vandkvæðin við að framfylgja þessu. Það er eitt að setja þetta í lög, og það lítur kannski ágætlega út í lagatextanum, en á bak við er ansi flókin framkvæmd sem er ekki hægt að komast hjá út af öllum skilyrðunum sem við viljum uppfylla ef við ætlum að standa vörð um mannréttindi almennt séð.

Í athugasemdum við greinina segir að ekki sé gerð krafa um að móttökuaðili sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Rauði krossinn er bara að velta því fyrir sér að það sé svolítið skrýtið, ef ég nota mitt orðalag á það; telur það sem sagt ótækt, enda er flóttamannasamningurinn grundvöllur þeirra viðmiða sem Ísland og samanburðarríki Íslands setja um vernd flóttamanna.

Ég fer í næstu lotu aðeins að rifja upp upprunann, hvaðan og af hverju við erum með þessi viðmið. Til hvers eru þau? Af hverju eru þau svona mikilvæg? Erum við bara búin að gleyma þeim nú rúmlega 70 árum seinna? Eru þau einhvern veginn óþörf? Ef svo er, ef einhverjum finnst þau óþörf, hvað þá með Úkraínu? Við erum augljóslega að taka vel á móti flóttafólki sem flýr stríðið í Úkraínu. Það er á nákvæmlega sömu forsendum sem þessi mannréttindi eru mikilvæg. Það er mjög merkilegt hvernig fólk frá Úkraínu fer í raun sveiginn fram hjá þessari venjulegu framkvæmd. Ég skil það alveg en samanburðurinn er samt mjög áhugaverður þegar allt kemur til alls. Fólk er að koma úr svipuðum aðstæðum annars staðar í heiminum.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að vernd sem er í boði þurfi að vera, með leyfi forseta, „effective“, sem er tæknilegt orð, eða skilvirk en tæknilegra en það. Vernd uppfyllir ekki það skilyrði ef það er skortur á varanlegum lausnum, takmörkuð geta til að hýsa flóttamenn og vangeta til að veita virka vernd. Af þeim ástæðum krefst beiting ákvæðisins vandaðrar og einstaklingsbundinnar skoðunar. Þá segir að beiting reglunnar um fyrsta griðland án þess að gengið sé úr skugga um að móttökuríkið taki á móti umsækjandanum myndi fela í sér brot á ákvæði reglugerðarinnar. Þetta ætti nú að segja sig sjálft að hluta en virðist einhvern veginn ekki gera það. Ég átta mig ekki á því, kannski þurfa stjórnarliðar að lesa allar umsagnirnar til þess að ná að bera þær saman, ná samhenginu. Kannski er það ekki nóg. Kannski þurfa þeir að fara í fortíðina. Mér sýnist það alla vega, við erum enn hérna.

En það er líka verið að breyta afmörkun 12 mánaða frests, sem er c-liður. 8. gr. Það eru breytingar á grein útlendingalaga sem fjallar um hvenær umsækjendur öðlist rétt til efnismeðferðar, þ.e. hvenær fólk fær loksins að komast í viðtal til að greina frá aðstæðum sínum; það er ýmislegt sem þar fylgir. Í núgildandi lögum geta umsækjendur fengið efnismeðferð vegna tafa á afgreiðslu umsóknar allt þar til þeir yfirgefa landið, það er miðað við heildardvalartíma umsækjenda á landinu, þ.e. tíma frá því að umsókn er lögð fram og þar til flutningur úr landi fer fram. En við breytingarnar yrði ekki tekið tillit til aðstæðna þeirra sem hafa fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu en þurfa jafnvel að bíða í langan tíma eftir það; og það er ekki endilega þeim að kenna heldur jafnvel stjórnvöldum af því að þau geta, svo að dæmi sé tekið, einfaldlega ekki sinnt brottflutningi fólks til Írans. Við Íslendingar getum ekki farið með fólk til Írans, það er ekki hægt, jafnvel í marga mánuði eða ár eftir brottvísun. Þetta er það sem við erum að fara að sjá, ákveðinn vítahring í þessu ákvæði nákvæmlega þar sem fólk mun bara verða heimilislaust eins og bent hefur verið á. Í ofanálag væri það á götunni ef ákvæði um þjónustuskerðingu gengur eftir. Ekki er gerð undantekning fyrir börn. Ég enda þetta í bili þarna.