Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:33]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að tala um málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga í gær. Mér fannst ég koma inn á frekar góða punkta hvað varðar árekstur tveggja lagaákvæða sem varða málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. En nú langar mig að fara aðeins efnislega út í ákvæðin. Ég talaði um þessar málsmeðferðarreglur og hvernig þær geta stangast á við almennu regluna sem búið er að móta í framkvæmd. Ég nefndi sérstaklega 2. gr., 6. gr., 7. gr. og 8. gr. og nú ætla ég að fara vel og vandlega yfir 2. gr. Ég er ekki bara búin að tala um 2. gr. heldur hafa umsagnaraðilar talað um hana og hv. þingmenn, sem hafa stigið upp í pontu og tjáð sig um frumvarpið, hafa talað um 2. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sætir sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skal greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.“

Virðulegi forseti. Ég er að hamra á punkti sem svo ótrúlega oft hefur verið hamrað á af hv. þingmönnum sem hafa komið upp í pontu. En það er alveg ástæða fyrir því að við erum að nefna þetta frumvarp aftur og aftur, trekk í trekk, og gagnrýna það. Þetta frumvarp er með einhverjum draslákvæðum eins og þessari 2. gr. Þetta hljómar eins og þetta auki skilvirkni með því að ákvörðun um að synja efnismeðferð á grundvelli 36. gr. muni sjálfkrafa sæta kæru til kærunefndar útlendingamála — nema greinargerðin vegna kæru þarf að berast kærunefndinni innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar. Nú spyr ég bara: Hvaða umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem hingað kemur og kann örugglega ekki tungumálið, er að fara að ná að redda sér lögfræðingi á 14 dögum, er að fara að ná að fara í gegnum þetta allt, annaðhvort á íslensku eða ensku, og skrifa greinargerð? Við vitum alveg hvernig staðan er í þessum málaflokki. Það er mikið af umsækjendum að koma hingað til landsins og það eru margar umsóknir að berast í kerfinu. Ég skil að við erum að reyna að finna einhverja leið til að flýta meðferðinni þannig að hver og ein umsögn taki ekki svona langan tíma.

Virðulegi forseti. Eins og við höfum margoft bent á þá gæti þetta leitt til þess að skilvirkni í kerfinu minnki. Mistök munu eiga sér stað, ákvarðanir verða teknar í flýti og þar af leiðandi á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. Eins og ég fór vel og vandlega yfir í gær: Ef ákvarðanir stjórnvalda samræmast ekki réttmætisreglu stjórnsýslulaga getur það leitt til bótaábyrgðar eða ógildingar. Því velti ég fyrir mér: Er þetta séns sem við erum til í að taka, sem við viljum taka? Þetta eru náttúrlega engar smávægilegar ákvarðanir sem við erum að taka um réttindi eða skyldur manna sem hingað leita í neyð. Bara til að árétta misskilning og eina mýtu, sem virðist vera algeng meðal fólks, sem er almennt mótfallið þessum málaflokki og mótfallið því að bæta kerfið, þá er enginn að leggja í svona ferð að gamni sínu. Það er enginn að fara frá Sýrlandi, svo að dæmi sé tekið, sigla yfir hafið til Grikklands og setjast að í Grikklandi, í þeim skelfilegu aðstæðum sem eru þar fyrir flóttafólk, bara til að velja sér eitthvert gott Evrópuríki með gott velferðarkerfi til að fara til ólöglega. Nei, þetta fólk er að flýja aðstæður í heimalandi sínu. Ég veit fyrir víst að það vill enginn fara frá fjölskyldu sinni. Það vill enginn fara frá samfélaginu sem þau eru búin að inngilda sig í, sem þau hafa fæðst í, úr samfélagi eða tungumáli sem þau þekkja. — Ég næ ekki að fara nógu vel út í efni 2. gr. og því óska ég eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.