Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég vil fjalla örlítið um þinglega meðferð þess frumvarps sem varð að lögum nr. 17/2017. Það er fyrsta breytingin sem gerð var á útlendingalögum eftir að þau tóku gildi, frumvarp sem var lagt fram af hæstv. dómsmálaráðherra, annars vegar til að laga það sem voru eiginlega bara mistök við orðalag — óvart voru gerðar auknar kröfur til þess hversu lengi samband, þar sem annar aðilinn væri ekki íslenskur, hefði varað til að réttur myndaðist til dvalarleyfis og hins vegar var verið að festa í sessi ákvæði um að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að brottvísa umsækjanda um alþjóðlega vernd ef um væri að ræða það sem Útlendingastofnun metur sem bersýnilega tilhæfulausa umsókn og viðkomandi væri á lista Útlendingastofnunar um örugg upprunaríki.

Það sem er áhugavert við þetta er að þetta er í fyrsta skipti þar sem pólitíkin í eðlilega skipuðu Alþingi kom að málum; breytingin sem gerð var nokkrum vikum áður var við þær aðstæður að ekki var starfandi meiri hluti hér á þingi, en þarna var búið að mynda ríkisstjórn og meiri hluti þings farinn að starfa eftir handriti hennar. Þetta var í fyrsta skipti þar sem pólitíkin kom að því að breyta útlendingalögum eftir að þau tóku gildi og þá var stigið ansi skýrt og afgerandi skref í áttina frá þverpólitísku samstöðunni sem svo gjarnan er vísað til varðandi uppruna þeirrar heildarendurskoðunar sem varð að þessum lögum 2016. Það birtist m.a. í því sem við þekkjum því miður úr málinu sem við erum með til umfjöllunar hér í dag, í því hvernig tekið var á umsögnum sem bárust við málið.

Við frumvarpið sem varð að lögum nr. 17/2017 bárust einar sjö umsagnir en ekki var öllum umsagnaraðilum boðið á fund allsherjar- og menntamálanefndar. Af hverju skiptir þetta máli? Jú, vegna þess að fólkið sem var boðið á fund nefndarinnar til að gera ítarlega grein fyrir afstöðu sinni var allt af sömu hlið. Nefndin sá sér fært að fá á fund fulltrúa frá innanríkisráðuneyti, fulltrúa frá kærunefnd útlendingamála og fulltrúa frá Útlendingastofnun. Þar fyrir utan bárust umsagnir frá Lögmannafélagi Íslands, lögreglunni á Suðurnesjum, No Borders Iceland og Rauða krossinum á Íslandi og það ótrúlega gerðist — nei, nei það er ekkert ótrúlegt. Þarna voru þrjár umsagnir sem allar vöruðu sérstaklega við því að samþykkja það ákvæði að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Akkúrat því fólki var ekki boðið á fund nefndarinnar. Fulltrúar Lögmannafélags Íslands, No Borders Iceland og Rauða krossins voru ekki á gestalista allsherjar- og menntamálanefndar. Þar með var viðhaldið pólitískri skekkju sem var á þessu frumvarpi frá því ráðherra lagði það fram með því að kalla bara til fólkið sem var sammála ráðherranum og láta hinar pappírsumsagnirnar liggja, að því er virðist, ósnertar — fyrir utan það að við sem mynduðum minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar á þeim tíma lásum þær nokkuð ítarlega og gerðum breytingartillögur á grundvelli þeirra.