Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég er enn að fara yfir 7. gr. laganna sem hljómar vel við fyrstu sýn. Þar er verið að setja inn nýtt ákvæði um svokallaðar endurteknar umsóknir. Endurteknar umsóknir eru ekki og hafa aldrei verið neitt sérstakt vandamál á Íslandi. Það kemur fyrir að fólk sæki um að nýju eftir að hafa komið til landsins og eftir að hafa flutt úr landi og annað en þetta eru samt í stóru myndinni sárafá dæmi. Enda held ég að fólk geri sér ekki miklar vonir um aðra niðurstöðu nema eitthvað hafi breyst, en það kemur þó fyrir. Hins vegar er algengara að fólk óski eftir endurupptöku vegna breyttra forsendna eða vegna þess að ný gögn hafa komið til. Sjálf hef ég mikla reynslu af því að óska eftir endurupptöku mála hjá kærunefnd útlendingamála og er það oft gert samhliða dómsmálshöfðun þar sem það er einfaldlega þannig að ef eitthvað nýtt kemur í ljós eða eitthvað breytist — það eru tímafrestir og annað sem geta komið inn — þá er það einfaldara fyrir alla ef málsmeðferðin næst að klárast á stjórnsýslustiginu af því að dómsmálsmeðferð tekur marga mánuði og stundum meira en ár, eitt til tvö ár eitthvað svoleiðis, í þessum málum ef ekki er um að ræða flýtimeðferð sem er almennt ekki nema um sé að ræða kornabarn.

Það er tiltölulega skýrt í greinargerð með frumvarpinu, reyndar ekki með þessu ákvæði heldur 3. gr., að formanni kærunefndar útlendingamála er falið vald til að afgreiða þessar umsóknir einn án þess að ráðfæra sig við restina af nefndinni. Í dag er honum það heimilt í málum einstaklinga frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum eða ríkjum af lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, það má deila um hvort þau séu örugg eða ekki, og ef umsóknir hafa verið metnar bersýnilega tilhæfulausar; þá má formaður kærunefndar útlendingamála úrskurða einn. Í 3. gr. er verið að heimila formanni kærunefndar útlendingamála að úrskurða einn í málum sem snúa að endurteknum umsóknum, sem er bara beiðni um endurupptöku, t.d. vegna þess að ný gögn hafa komið til, það er verið að fela formanninum að úrskurða einn í þessum málum líka. Í greinargerð með þeirri grein segir, með leyfi forseta:

„Með tillögunni er leitast við að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni nefndarinnar en endurupptökubeiðnum vegna alþjóðlegrar verndar hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Þannig voru þær einungis 28 árið 2016 þegar gildandi lög voru samþykkt en 159 árið 2021. Á heimildin einkum við í málum þar sem skýr fordæmi og framkvæmd eru til staðar. Telji formaður að fyrir hendi sé efnislegur vafi um þau málsatvik og lagaatriði sem verulega þýðingu hafa fyrir niðurstöðu málsins skal vísa beiðninni til nefndarinnar til ákvörðunar í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laganna.“

Vandinn hér er sá að hvað varðar hina tegund málanna, sem formanni kærunefndar útlendingamála er heimilt að úrskurða einn í, sem er þó að mínu mati mjög vafasöm heimild, hefur Útlendingastofnun komist að þeirri niðurstöðu að um bersýnilega tilhæfulausa umsókn sé að ræða og það þarf líka að vera umsókn frá einstaklingi sem er með ríkisfang í ríki á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Í þessum málum, þegar sótt er um endurupptöku, erum við ekki að tala um slík mál. Þá erum við ekki að tala um mál sem þegar hafa verið úrskurðuð bersýnilega tilhæfulaus og formanni einum er heimilt að skera úr um það. Þarna er honum falið vald til að fara yfir allar beiðnir um endurupptöku einn án þess að ráðfæra sig við neinn og það er engin leið fyrir umsækjanda, kæranda, beiðanda um endurupptöku, að rífast um það hvaða niðurstöðu hann kemst að.

Mig langar líka að benda á það í þessu samhengi, af því að í greinargerðinni er fjallað um þetta, að það voru 28 beiðnir um endurupptöku árið 2016, 159 árið 2021. Ég ætla að koma með annan syllutrylli, biðja hlustendur um að hafa í huga hvað gekk á í kringum árið 2021. Þá var hér heimsfaraldur Covid, búinn að standa yfir í u.þ.b. ár. Ég ætla líka biðja fólk að hafa í huga hversu margar umsóknir um vernd bárust árið 2016, árið 2021, ég ætla að afhjúpa þær tölur hérna eftir augnablik. — Ég óska eftir því við forseta að verða sett aftur á mælendaskrá.