Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að virðulegur forseti er búinn að bíða spenntur eftir framhaldi á umfjöllun minni um flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Í síðustu ræðu var ég að fjalla um 2. mgr. 12. gr. sem fjallar m.a. um það að aðildarríki verði að virða réttindi eins og t.d. hjúskap. Það er einmitt bent á það í athugasemd Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að í uppkasti að 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga eigi umsækjandi ekki eins ríkan rétt á fjölskyldusameiningu og verið hefur. Það er náttúrlega bara beint brot á þessari 2. mgr. 12. gr. En enn og aftur virðist sem ráðherra dómsmála, ráðuneyti hans, og meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sé alveg sama þótt brotið sé á alþjóðasamningum sem Ísland á aðild að. Það er að sjálfsögðu mjög slæmt, jafnvel ámælisvert, jafnvel vítavert.

En við skulum halda áfram og fara yfir í næstu grein, 13. gr. Í henni er fjallað um lausafé og fasteignir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum eins góða aðstöðu og mögulegt er, og að minnsta kosti ekki síðri en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður, að því er varðar öflun lausafjár og fasteigna og önnur réttindi í sambandi við það, svo og leigu eða aðra samninga varðandi lausafé og fasteignir.“

Já, þetta er athyglisvert, að veita flóttamönnum eins góða aðstöðu og mögulegt er og þá líka að leyfa þeim að afla sér lausafjár. Við komum kannski að því í III. kafla þessa samnings þar sem m.a. er fjallað um möguleika og rétt til þess að stunda launaða atvinnu og það er athyglisvert að þetta tengist allt saman. Við höfum einmitt fjallað um að það sé mikilvægt, til þess að auka skilvirkni í þessum málum, að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd sem fyrst afgreiðslu sinna mála og að koma þeim inn í hið venjulega kerfi og gera þeim mögulegt að sækja sér atvinnu og fara þar með að leigja sér húsnæði og annað sem þau vilja. Þau vilja fá að standa á eigin fótum en ekki vera baggi á kerfinu eins og kerfið neyðir þau því miður til að vera núna.

Já, ég á rétt um mínútu eftir — ég ætla ekki að byrja á næstu grein því að hún er aðeins lengri. Mig langar að nota þær örfáu sekúndur sem ég á eftir til að óska eftir því við forseta að fá smáleiðbeiningu. Í samningum eru notuð latnesk orð til að skýra út lagareglur og ég spyr, þegar maður er með tilvitnanir í samninga sem innihalda slíkt, hvort maður eigi að nota latnesku heitin en sem nýr þingmaður þá veit ég þetta ekki. Mig langar að spyrja að þessu og óska eftir því, og það virðist kannski vera skrýtin beiðni, að komast aftur á mælendaskrá.