Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:54]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að fjalla um 2. gr. frumvarpsins þegar ég kom hingað upp síðast. En hvað varðar 2. gr. þá held ég að búið sé að fara frekar vel yfir hana. Ég ætla bara að reyna að fara í gegnum svolítið marga punkta í einni ræðu og aðeins að leiðrétta nokkrar rangfærslur sem hafa skapað sér sess í þessum málaflokki og í umræðunni út á við. Það virðist vera svo að hæstv. dómsmálaráðherra rökstyðji þetta frumvarp með þeim hætti að það muni verða til þess að málsmeðferðartími fólks styttist, m.a. með 2. gr., með því að synjun á efnismeðferð muni sjálfkrafa sæta kæru til kærunefndar útlendingamála. En það er bara ekki rétt. Þessar breytingar sem hæstv. ráðherra leggur til munu vinna gegn skilvirkni og þetta mun fjölga málum þar sem fólk mun vera hér í lengri tíma án þess að fá úrlausn mála sinna. Ein mesta réttarbót sem lögfest var árið 2016, 12 mánaða reglan, er bara tekin úr sambandi með þessu frumvarpi.

Það er verið að tala um að auka skilvirkni og færa þetta kerfi í átt að hraðvirkara kerfi og réttlátara kerfi og allt það og ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra eindregið til að endurskoða þau ákvæði sem þingmenn Pírata hafa gert margar og miklar athugasemdir við hér í dag. Hins vegar þegar verið er að taka þessa 12 mánaða reglu úr sambandi þá þýðir það að fólk getur verið hér árum saman án þess að skorið sé úr um það hvort það eigi að skoða þessa umsókn. Og hvað gerir það? Jú, það mun náttúrlega skapa meira álag á kerfið.

Ég veit ekki hvort ég eigi að vera að tala eitthvað efnislega um þetta hér uppi í pontu varðandi ímynd sumra á stefnu Pírata þegar kemur að flóttamannamálum. En staðreyndin er náttúrlega sú að við viljum stefna að sama markmiði og flestir sem hér sitja á þingi og það er að auka skilvirknina, taka vel á móti því fólki sem við tökum á móti og veita því réttláta og góða málsmeðferð í samræmi við allar málsmeðferðarreglur stjórnvalda sem Útlendingastofnun ber að fara eftir. Þetta frumvarp er bara einfaldlega ekki til þess fallið.

Núgildandi lög bjóða upp á það að þessi mál séu afgreidd mjög hratt. En með því að vera eitthvað að rembast við að reyna að senda fólk til baka þá er málsmeðferðin leynd og málið mun tefjast enn meira. Samkvæmt núgildandi lögum væri hægt að taka mál þessa fólks til efnismeðferðar og veita því stöðu flóttamanns á innan við klukkutíma en þetta er náttúrlega á endanum ákvörðun ráðherra. Og ákvörðun ráðherra um að senda fólk aftur til Grikklands og Ungverjalands, það er í hans verkahring og ekki á valdi annarra. Það er undir honum komið að ákveða hvort hann ætli að beita þessari heimild eða ekki. Ég man þegar umræða var um það að koma á fót flóttamannabúðum í Reykjanesbæ. Ég man ekki hvað á að kalla þetta, samræmd móttaka flóttafólks, nei, búsetuúrræði fyrir flóttafólk, eitthvað svoleiðis. Þetta var rosalega mikið, afsakið slettuna, „new speak“ og mig langar að fara í smá efnislega umfjöllun um það og útskýra fyrir þeim sem eru heima að horfa og útskýra fyrir hv. meiri hluta, ef þau eru að hlusta, hvers vegna það mun draga úr skilvirkni og hvers vegna það er rosalega kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð. En þá þarf ég að fara aftur á mælendaskrá.