Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Þegar ég skildi áhorfendur eftir í mikilli eftirvæntingu hérna áðan þá var ég búin að lofa að koma með tölur yfir fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd árið 2016 miðað við árið 2021. Nú, hvers vegna? Vegna þess að við erum að fjalla um 7. gr. frumvarpsins sem sviptir fólk á flótta réttinum til þess að fá mál sitt endurupptekið ef það koma fram ný gögn eða forsendur breytast í málunum. Rökin fyrir þessu — í greinargerð með frumvarpinu segir, reyndar um 3. gr. en þær tengjast mjög, þessar tvær, 3. og 7. gr., og reyndar fleiri greinar, með leyfi forseta:

„Með tillögunni er leitast við að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni nefndarinnar en endurupptökubeiðnum vegna alþjóðlegrar verndar hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Þannig voru þær einungis 28 árið 2016 þegar gildandi lög voru samþykkt en 159 árið 2021.“

Ég ætla bara að stoppa þarna. Árið 2016 — nú er ég búin að taka saman tölur yfir umsækjendur á þessum árum. Ég ætla að taka út úr báðum tölunum þær umsóknir sem metnar voru bersýnilega tilhæfulausar þar sem það urðu líka breytingar þarna á milli sem leiddu til þess að umsóknir sem eru metnar bersýnilega tilhæfulausar — fólk fær brottvísunin og endurkomubann og annað slíkt þannig að þær umsóknir hurfu nánast þannig að ég tek þær út. Umsóknir sem ekki voru metnar bersýnilega tilhæfulausar árið 2016 voru 417. Árið 2021 voru umsóknir sem ekki voru metnar bersýnilega tilhæfulausar u.þ.b. 859. Það er því meira en tvöföldun á umsóknum þarna á milli ára og því eðlilegt að það sé fjölgun á beiðnum um endurupptöku samhliða því þótt það sé í sjálfu sér ekkert sem segir okkur að það eigi að vera fylgni þarna á milli.

Í ofanálag er þorri þeirra beiðna um endurupptöku sem hafa legið fyrir kærunefnd útlendingamála að undanförnu vegna tafa á málsmeðferð í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19. Við erum því að tala um fjölgun sem er ekki einu sinni það mikil ef við gefum okkur að 100 manns úr þessum hópi, af þessum beiðnum um endurupptöku, séu þeir einstaklingar. Ég er með þær tölur líka einhvers staðar á blaði, en það er á útprentuðu blaði þannig að ég þarf að grafa aðeins dýpra eftir því, tölunum yfir þessi svokölluðu Covid-mál. Ef við gefum okkur að þær séu eitthvað í kringum 100 þá erum við að tala um að það er engin fjölgun á beiðnum um endurupptöku frá 2016–2021. Ef það er rétt, gefum okkur smá vikmörk fram og til baka, þá er það einfaldlega rangt í rauninni sem kemur fram í greinargerð, að það sé einhver mikil fjölgun á þessu á undanförnum árum, sem sé eitthvað sem þurfi að bregðast við með öðrum hætti en að bregðast við Covid-19 heimsfaraldrinum, sem hefur nú verið gert, held ég, með nokkuð árangursríkum hætti, þótt sannarlega sé deilt um réttmæti þeirra aðferða sem hefur verið beitt.

Hvað er ég að reyna að sýna fram á hérna? Jú, það sem ég er að reyna að sýna fram á er að enn og aftur í þessu frumvarpi er verið að gera tillögur um breytingar á lögum sem skerða verulega réttaröryggi fólks á flótta án þess að leysa nein vandamál. Ég endurtek: Án þess að leysa nein vandamál. Það er ekki verið að bæta neina skilvirkni hérna. Það er ekki verið að straumlínulaga kerfið, það er ekki verið að sníða af vankanta og koma með einhverja heildarsýn. Þetta er bara eitthvert svona — ég ætla að leyfa mér að biðjast afsökunar á því fyrir fram, herra forseti — skítamix, til þess einhvern veginn að bjarga þeim málum þar sem aðallega Útlendingastofnun, en stundum líka kærunefnd útlendingamála, þó sjaldnar, hefur verið gerð afturreka með sínar ákvarðanir og það er gert á grundvelli þeirra laga sem við höfum, og eðlilega.

Þar fyrir utan er fjöldi beiðna um endurupptöku, sérstaklega þegar fallist er á talsverðan hluta þeirra beiðna, eins og staðan er í dag, ekki rök fyrir því að svipta fólk réttinum til þess að óska eftir endurupptöku nema síður sé. Ef eitthvað er ætti í ljósi þessarar fjölgunar á beiðnum um endurupptöku að fara í að skoða hvers vegna fólk telur mál sitt ekki hafa verið nægilega skoðað. Það væri nær að fara í það, eins og ég þreytist ekki á að hamra á, að skoða framkvæmdina. Það eru gallar í framkvæmdinni hérna. Framkvæmdin er eitthvað sem við á Alþingi þurfum í sjálfu sér ekkert að bregðast við. Reyndar hefur Alþingi margoft reynt að bregðast við algjörlega fráleitri framkvæmd stjórnvalda og er að gera það reyndar með breytingartillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar við þetta frumvarp en það snýst ekki um að gera neina varanlega breytingu á lögunum til þess að bregðast við heldur einmitt bráðabirgðaákvæði til að leiðrétta kolrangar ákvarðanir Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála. Aðferðafræðin sem ríkisstjórnin beitir í þessum málaflokki er, ég ætla að endurtaka, og biðst aftur afsökunar, ekkert nema skítamix.