Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:16]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Við erum enn að fjalla um 7. gr. frumvarpsins og þó að verið sé að grauta saman tveimur hugtökum sem óþarft er að grauta saman, og mjög skaðlegt raunar, ætla ég að vinda mér yfir í hinn þáttinn, þ.e. svokallaðar raunverulegar endurteknar umsóknir. Það er nefnilega við þennan þátt ákvæðisins sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerði athugasemd í umsögn sinni við frumvarpið.

Það sem mér finnst alvarlegast við 7. gr. er niðurfelling réttar fólks til að fá mál sitt endurupptekið. Hins vegar skulum við leggja það aðeins til hliðar og ímynda okkur að ákvæðinu sé líka ætlað að ná utan um svokallaðar endurteknar umsóknir, og þá er ég að tala um endurteknar umsóknir, ef við ímyndum okkur t.d. að einstaklingur fari af landi brott og komi aftur, það er kannski besta dæmið. Það kemur sannarlega fyrir en er ekki algengt og ekki teljandi vandamál hér á landi og hefur aldrei verið. Þær athugasemdir sem Flóttamannastofnunin gerir nefnilega við þetta ákvæði lúta að þessum þætti, vegna þess að ákvæðið sem frumvarpshöfundar vilja að falli undir þessi ákvæði um endurteknar umsóknir eru fyrst og fremst mál sem falla undir 36. gr. laga um útlendinga. Það eru mál sem stjórnvöld vilja vísa frá án þess að skoða efnislega. Ef við bara tölum hreint út og erum ekki að flækja þetta þá erum við að tala um Grikklandsmálin. Við erum að tala um fólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum og þorri þeirra var að flýja Grikkland. Þessu nýju ákvæði er þannig engan veginn ætlað að samræma íslenska löggjöf því sem gerist á Norðurlöndunum. Því er beint gegn, eins og mjög mörgu í þessu frumvarpi, þessu fólki sem er koma hingað frá Grikklandi. Það er áhugavert vegna þess að upphaflega var í þessu frumvarpi — alveg þangað til síðasta vor eða hvort það var síðasta vor líka, ég er búin að gleyma nákvæmlega hvenær það var tekið út en held að það hafi mögulega verið tekið út núna í haust — heimildin til þess að skoða umsóknir fólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki, t.d. Grikklandi, einfaldlega afnumin úr lögunum. Þá hefði ekki þurft að gera allan þennan óskunda. Þannig að fyrst hægt var að friða Vinstrihreyfinguna – grænt framboð með því að taka það út voru bara farnar aðrar leiðir til þess að eyðileggja það ákvæði. Ekki það að af orðum hv. þm. Jódísar Skúladóttur í Silfrinu um daginn er ekki að sjá að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé neitt sérstaklega mikið á móti því að það verði einfaldlega skrúfað fyrir umsóknir fólks sem hefur fengið vernd í Grikklandi, en það er önnur saga.

Ég vil fara aðeins yfir athugasemdir Flóttamannastofnunarinnar við 7. gr. og nú erum við að tala um endurteknar umsóknir; einstaklingur fær synjun, fer úr landi, kemur aftur, sækir aftur um, ekkert breytt eða eitthvað pínulítið breytt. Með leyfi forseta:

„Samkvæmt tillögunni er nauðsynlegt að samræma íslenskar reglur og verklag við það sem gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum hvað varðar endurteknar umsóknir um alþjóðlega vernd og gera þær skilvirkari. Slíkum umsóknum verður vísað frá nema umsækjandinn sé staddur á Íslandi og nýjar upplýsingar í málinu séu tiltækar sem leiði til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að endurtekna umsóknin verði samþykkt.

Að mati Flóttamannastofnunarinnar er aðeins réttlætanlegt að meðhöndla umsókn sem endurtekna umsókn“ — og hlustið nú vel — „ef fyrri umsóknin var tekin til efnislegrar meðferðar, þar sem farið var eftir öllum tilheyrandi réttarfarsreglum.“

Hér ætla ég að staldra við. Þarna strax er Flóttamannastofnunin búin að eyðileggja tilganginn með þessu ákvæði frumvarpsins, sem er að losna við umsóknir fólks sem hefur fengið vernd í öðru ríki. Þær umsóknir hafa nefnilega ekki verið teknar til efnislegrar meðferðar. Þær umsóknir hafa ekki verið skoðaðar. Það fólk hefur ekki fengið neina áheyrn um þörf sína fyrir vernd. Þannig að þarna, með því að gera þessa kröfu sem Flóttamannastofnunin álítur mjög einfalda kröfu, „basic“, er strax búið eyðileggja raunverulegar fyrirætlanir frumvarpshöfunda. Ef fyrirætlanirnar væru eins og þær eru settar fram í frumvarpinu ættu frumvarpshöfundar og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar ekki að eiga í neinum vandræðum með að einfaldlega taka þessar athugasemdir Flóttamannastofnunarinnar og laga frumvarpið að þeim. En tilgangurinn er ekki sá sem er tilgreindur í frumvarpinu. — Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.