Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:21]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er hér í yfirferð minni um flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og er að fara í gegnum hann og þær greinar hans sem tengjast því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu. Ástæðan fyrir því að ég er að fara í gegnum þetta er sú að það eru margar greinar hér sem Útlendingastofnun er að brjóta í núverandi framkvæmd sinni en líka greinar sem stangast á við greinar frumvarpsins.

III. kaflinn fjallar um arðbæra atvinnu og fyrsta greinin þar er 17. gr., sem fjallar um launaða atvinnu. Ég ætla að lesa þær þrjár málsgreinar sem þar eru áður en við ræðum það nánar, með leyfi forseta:

„1. Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, beztu aðstöðu sem þau veita þegnum annars ríkis við sömu aðstæður, að því er varðar réttinn til að stunda launaða atvinnu.

2. Hvað sem öðru líður, skal takmörkunum, sem beint er gegn útlendingum eða atvinnu útlendinga til verndar vinnumarkaði landsins, ekki beitt gegn flóttamanni, sem þegar var undanþeginn þeim er samningur þessi gekk í gildi fyrir hlutaðeigandi ríki, eða fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a) Að hann hafi haft aðsetur í landinu í þrjú ár;

b) Að maki hans eigi ríkisborgararétt í aðseturslandinu. Flóttamaður getur ekki krafizt að njóta góðs af þessu ákvæði, ef hann hefur yfirgefið maka sinn;

c) Að hann eigi eitt eða fleiri börn, sem eigi ríkisborgararétt í aðseturslandinu.

3. Aðildarríkin skulu taka til velviljaðrar athugunar að samræma réttindi allra flóttamanna, að því er snertir launaða atvinnu, þeim réttindum, sem ríkisborgararnir njóta, og sér í lagi réttindi þeirra flóttamanna, sem hafa komið til landa þeirra samkvæmt áætlunum um ráðningu vinnuafls eða reglum um innflutning fólks.“

Það er alltaf dálítið gaman að lesa svona gamlan lagatexta, hann er fullur af z-um sem var afnumin fyrir löngu. En þarna eru settar reglur um það hvað skuli gera til að tryggja flóttamönnum möguleika á atvinnu. Það er nokkuð sem við höfum nefnt sem gott dæmi um það hvernig hægt er að gera kerfið skilvirkara því með því er hægt að tryggja það að flóttamenn verði ekki byrði á samfélaginu. Þegar við segjum þetta, að hægt sé að veita fólki atvinnuleyfi mun fyrr, þá kemur svarið: Já, en þá koma allir hingað til að fá atvinnu. Það er bara ekki þannig vegna þess að fólk þarf að uppfylla skilyrði, t.d. um að vera að flýja neyð. En væri ekki betra að ganga frá þessum hlutum hratt og auðveldlega og koma þessu fólki út á vinnumarkaðinn sem fyrst? Það hefur t.d. sýnt sig að 80–90% íbúa frá Venesúela sem hafa fengið hæli eru komin með starf innan eins árs og það veitir ekki af nú þegar við erum að taka á móti fleiri og fleiri ferðamönnum hér á hverju ári. Við þurfum á góðu fólki að halda.

Það ætti kannski ekki að koma virðulegum forseta á óvart að ég óski eftir því að komast aftur á mælendaskrá.