Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:27]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Áðan var ég að tala um rangfærslur hæstv. dómsmálaráðherra í tengslum við þessar mýtur sem hafa verið í umræðunni. Mér finnst líka mikilvægt að tala um sjónarmið og skoðanir þeirra sem eru sérfræðingar í þessum málaflokki. Formaður hjálparsamtakanna Solaris hefur margoft tjáð sig varðandi þetta frumvarp og sent inn umsagnir í öll skiptin sem frumvarpið hefur verið lagt fram, að ég held. Þær áhyggjur og umsagnir hafa ekki verið teknar til greina og því langar mig að lesa upp einn status sem þessi formaður skrifaði á Facebook og heitir Opið bréf til forsætisráðherra Íslands um stöðu flóttafólks í Grikklandi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Kæra Katrín Jakobsdóttir, það hefur legið fyrir árum saman hversu slæmar aðstæður eru fyrir fólk á flótta í Grikklandi. Ríkisstjórn þín tók fyrir nokkrum árum þá ákvörðun að hætta að endursenda fólk í hæliskerfinu þar í landi vegna óviðunandi aðstæðna. Það nær þó ekki til fólks með vernd í Grikklandi þó aðstæður þeirra séu í dag verri en aðstæður fólks í verndarkerfinu í sama landi. Það staðfesta alþjóðleg hjálpar- og mannúðarsamtök, frásagnir flóttafólks og sjálfboðaliða á svæðinu sem og fréttaflutningur síðustu ára en samkvæmt ummælum þínum síðustu daga virðast þær upplýsingar ekki hafa komist til skila til íslenskra stjórnvalda.

Hér eru því nokkur dæmi um þær aðstæður sem bíða hátt í 100 einstaklinga sem ríkisstjórn þín ætlar að senda til Grikklands á næstu dögum, sem Rauði krossinn á Íslandi hefur meðal annarra ítrekað bent á:

Aðstæður flóttafólks í Grikklandi eru óviðunandi. Í sumum tilfellum eru þær lífshættulegar. Fólk með vernd í Grikklandi á erfitt með að uppfylla grundvallarþarfir sínar vegna hindrana á hinum ýmsu sviðum. Aðgengi að opinberri framfærslu er takmarkað fyrir fólk með vernd í Grikklandi sem hefur orðið til þess að fjöldi fólks hefur ekki tækifæri til að afla sér lágmarkslífsviðurværis. Fólk sem fær vernd í Grikklandi á einungis rétt á að dvelja í flóttamannabúðum í mjög stuttan tíma. Í flóttamannabúðum er öryggi, hreinlæti, matvælum og aðbúnaði verulega ábótavant. Flóttafólk hefur mjög skert aðgengi að húsnæðismarkaði og mikill fjöldi býr á götunni eftir að það fær vernd. Í sumum tilfellum á fólk ekkert til að skýla sér með nema pappaspjöld. Erfitt er fyrir fólk með vernd að sækja sér heilbrigðisþjónustu m.a. vegna álags á gríska heilbrigðiskerfinu. Gríðarlega mikið atvinnuleysi er á meðal flóttafólks í Grikklandi. Flóttafólk hefur skertan aðgang að atvinnu og er mismunað á atvinnumarkaði. Flóttafólk í Grikklandi verður fyrir miklu ofbeldi, kynferðisbrotum og rasisma, jafnt af höndum almennings sem og yfirvalda, t.d. lögreglu. Réttur flóttafólks til félagslegs stuðnings er nær enginn og hann er óaðgengilegur. Flóttafólk í Grikklandi lifir sumt við hungursneyð. Mikill fjöldi flóttabarna gengur ekki í skóla í Grikklandi og gögn benda til þess að rétturinn til menntunar sé ekki í öllum tilvikum virkur. Stór hluti þeirra flóttabarna sem koma hingað til lands eftir að hafa dvalið í Grikklandi eiga við heilsufarsvandamál að stríða. Dæmi eru um að börn sem hingað hafa komið frá Grikklandi þjáist af næringarskorti. Tannheilsu er almennt ábótavant auk þess sem útbrot og húðsjúkdómar sem rekja má til óviðundandi húsnæðis eru algengir. Mörg þeirra barna sem hingað koma frá Grikklandi glíma við kvíða, svefnvandamál og þroskafrávik sem rekja má til óviðunandi aðstæðna í Grikklandi.“

Það er meira í þessari færslu en ég ætla bara að taka smáumfjöllun um þetta. Ég man árið 2016 eða 2017 þegar hæstv. forsætisráðherra talaði hér á þingi um að þetta gætu verið börnin okkar sem væru á flótta. Það er vissulega rétt. Eins og ég benti á í gær megum við alveg búast við því að fólksflutningar á milli landa aukist á næstu árum með tilkomu aukinna áhrifa loftslagsbreytinga en í stað þess að við tökumst á við vandann núna strax ætlum við að loka augunum fyrir þessum vanda og yfirvofandi vanda og loka af kerfið okkar, eða ekki beint loka það af en þrengja það og gera það erfiðara fyrir fólk að sækja um vernd og fá réttláta málsmeðferð fyrir stjórnvöldum á Íslandi. — Ég sé að tíminn er á þrotum og óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.