Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:37]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að vera með forseta hér í björtu veðri, það er alla vega bjart úti. Áður en ég held áfram yfirferð minni um flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna langar mig að bregða aðeins út af umræðunni og óska hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur til hamingju með afmælið. Það eru ekki allir sem eyða afmælinu sínu í að berjast fyrir réttlæti þeirra sem ekki hafa rödd hér á Alþingi.

Frú forseti. Áður en sú sem nú situr í forsetastól kom hingað inn hafði ég verið að fara yfir hinar ýmsu greinar flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 28. júlí 1951 og var kominn í III. kafla um arðbæra atvinnu. Það er bara örstutt eftir svo að ég ætla að renna mjög hratt í gegnum 19. gr. og taka 1. mgr. þar, með leyfi forseta:

„Sérhvert aðildarríki skal veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í landi þess, hafa prófskírteini viðurkennd af þar til bærum stjórnvöldum þess ríkis og vilja stunda störf, er menntun þarf til, eins góða aðstöðu og mögulegt er, og aldrei óhagstæðari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður.“

Með öðrum orðum eigum við að horfa á prófskírteini fólks þó að það komi frá löndum sem kannski eru í stríði þegar kemur að því að veita því leyfi til að vinna. Þetta var það litla sem var eftir af III. kafla en IV. kafli fjallar um velferðarmál og þar eru nokkrir nokkrar greinar sem mig langar að nefna sérstaklega.

Bara til gamans langar mig að lesa fyrst 20. gr. sem sýnir svolítið tíðarandann þegar þetta var samið. Þótt greinin hafi ekkert með frumvarpið að gera og þessi útúrdúr sé kannski örlítil töf vona ég að frú forseti leyfa mér það. 20 gr. fjallar um skömmtun og þar segir: „Þar sem skömmtunarkerfi er til almennrar dreifingar vara, sem skortur er á, og það nær til landsmanna yfirleitt, skulu flóttamenn njóta sama réttar og ríkisborgarar.“ Já, svona breytast nú tímarnir. Það er svolítið langt síðan við höfum þurft að eiga við skömmtun hér á landi þó svo að næstum hafi komið til þess í hruninu 2008.

En áfram með þær greinar sem virkilega hafa með frumvarpið að gera. Mig langar að tala um 21. gr. næst, um húsnæðismál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að því er tekur til húsnæðis, skulu aðildarríkin, að svo miklu leyti sem því máli er skipað með lögum eða reglugerðum, eða er háð eftirliti opinberra stjórnvalda, veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, eins góða aðstöðu og mögulegt er, og aldrei lakari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður.“

Frú forseti. Við þurfum að passa þegar við erum að taka á móti flóttamönnum að við séum ekki að setja þá í húsnæði sem getur verið hættulegt heilsu þeirra og það sé a.m.k. ekki lakara en annað sem útlendingar almennt búa við hér á landi.

Það er ein mínúta eftir hérna og ég ætla að nota hana til að fara í 22. gr. sem fjallar um almenna menntun. Þar segir, með leyfi forseta:

„1. Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum sömu aðstöðu og veitt er ríkisborgurum, að því er tekur til barnafræðslu.

2. Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum eins góða aðstöðu og mögulegt er og aldrei lakari en veitt er útlendingum almennt við sömu aðstæður, að því er snertir menntun aðra en barnafræðslu, einkum að því er varðar aðgang að námi, viðurkenningu vottorða og prófskírteina frá erlendum skólum, eftirgjöf á skólagjöldum og kostnaði og veitingu námsstyrkja.“

Það er því miður enn þá pottur brotinn þegar kemur að því að tryggja aðgengi allra þeirra sem hingað koma að menntun og ég tel að þetta sé hlutur sem við getum svo sannarlega í sameiningu unnið í að bæta. — Það kemur hæstv. forseta kannski ekki á óvart (Forseti hringir.) að ég bið um að komast aftur á mælendaskrá.