Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:43]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var að lesa áðan opið bréf til forsætisráðherra frá formanni Solaris en í fyrri ræðum mínum í dag var ég að tala um 2. gr. frumvarpsins sem ég held, og ekki bara ég heldur líka umsagnaraðilar, að muni leiða til minni skilvirkni í kerfinu. Mig langar því að lesa umsögn Íslandsdeildar Amnesty International en þar segir um 2. gr. frumvarpsins, virðulegi forseti:

„Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnislegri meðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski sérstaklega að svo verði ekki. Þá er gerð sú krafa að greinargerð vegna kæru berist kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.

Gagnaöflun vegna kæru er háð afhendingu gagna frá Útlendingastofnun sem gefur sér að lágmarki 10 virka daga til þess að afhenda skjöl. Það sama á við um gagnaöflun frá öðrum stjórnvöldum og aðilum almennt. Sú staðreynd að umsækjendur geta ekki treyst því að gögn verði afhent þeim með stuttum fyrirvara á meðan mál þeirra sæta sjálfkrafa kæru, mun leiða til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd verða ófærir um að undirbúa viðunandi málsvörn og að mál þeirra sé nægjanlega upplýst í skilningi rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar ákvörðun er tekin. Tillögð lagabreyting felur í sér áhættu um að þessi málaflokkur verði sá eini sem lýtur málsmeðferð innan stjórnsýslunnar þar sem málsaðilum er ekki tryggður sá kostur að njóta réttar síns til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns í skilningi 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Miðað við ofangreint mun ákvæðið leiða til verulegrar skerðingar á réttarvernd umsækjenda um alþjóðlega vernd. Mikilvægt er að aukin skilvirkni komi ekki niður á réttaröryggi umsækjenda. Íslandsdeild Amnesty International leggur því eindregið til að fallið verði frá þeirri breytingu sem 2. gr. frumvarpsins felur í sér.“

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið heils hugar undir þessa athugasemd um 2. gr. frumvarpsins. Þetta eru hlutir sem ég fór frekar ítarlega yfir hér í dag. Ég fór yfir rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og síðan fór ég líka yfir réttaröryggi og réttarvernd aðila máls. Það er mjög mikilvægt að passa upp á réttaröryggið þegar það er verið að afgreiða mál sem varða réttindi eða skyldur einstaklinga og þetta er bara nákvæmlega það sem er verið að gera, það er verið að afgreiða umsögn sem varðar alþjóðlega vernd og þar af leiðandi um rétt eða skyldur manna.

Hvar á ég að byrja, virðulegur forseti? Jú, ókei, ég ætla bara að byrja á greinargerðinni sem umsækjandi þarf að skila innan 14 daga. Guð minn góður, ég get ekki einu sinni skilað inn greinargerð innan 14 daga og ég kann íslensku og er löglærð. Það tekur samt tíma að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að geta skilað inn ítarlegri greinargerð. Þessi gagnaöflun, eins og Amnesty International bendir á, er háð gögnum frá Útlendingastofnun og Útlendingastofnun gefur sér að lágmarki tíu virka daga til að afhenda skjöl. Ókei, segjum sem svo að Útlendingastofnun taki sér alla þessa tíu daga til að afhenda skjöl, fimm virka daga og svo aftur fimm virka daga í næstu viku. Þá eru fjórir dagar eftir til þess að semja ítarlega greinargerð og senda hana inn, stimpla hana inn. Þegar maður setur þetta í samhengi, þegar maður byrjar að tala svona mannlega um þetta og byrjar að brjóta einstaka þætti niður sem þarf að gera til þess að uppfylla þessi skilyrði 2. gr. þá hljómar þetta bara fáránlega, í alvörunni talað. Ég legg til að þegar ríkisstjórnin byrjar að semja lagafrumvörp sem eru með íþyngjandi heimildir eins og þessar, t.d. til að vísa fólki úr landi, eða kveða á um rétt eða skyldur borgara þá verði einhver fenginn inn í herbergið með þeim sem skrifa frumvarpið til að brjóta þetta niður fyrir þeim, því að þá áttar maður sig betur á því hvað þetta hljómar fáránlega og óframkvæmanlegt.

Ég sé að tími minn er á þrotum, virðulegi forseti. Ég er ekki einu sinni búin að fara efnislega út í 2. gr. Ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.