Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hér áðan var ég að fjalla um afgreiðslu frumvarps þess sem síðar varð að lögum nr. 17/2017, um breytingar á útlendingalögum, þar sem annars vegar var verið að leiðrétta það sem var eiginlega bara villa eða óskýrt orðalag sem Útlendingastofnun kaus að túlka þannig að það kæmi sem verst niður á útlendingum. Þess vegna þurfti Alþingi að grípa fram fyrir hendurnar á Útlendingastofnun og skýra orðalagið þannig að það færi ekkert á milli mála hvað átt væri við. Hins vegar var sett inn varanlega það sem áður hafði verið sett inn sem bráðabirgðaákvæði, að kæra fresti ekki réttaráhrifum einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd ef viðkomandi kemur frá svokölluðu öruggu upprunaríki og Útlendingastofnun metur umsóknina bersýnilega tilhæfulausa. Það komu fram mjög skýr rök gegn því að kæra skyldi ekki fresta réttaráhrifum. Rökin voru vel rakin og möguleg áhrif þessarar breytingar á umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þau komu skýrt fram í umsögn Rauða kross Íslands við frumvarpið og þar var líka vísað í það sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur beitt sér fyrir og Rauði krossinn benti t.d. á svokallaða handbók um réttarstöðu flóttamanna þar sem segir í vii. lið 192. mgr. að, með leyfi forseta:

„[v]eita skuli umsækjanda dvalarleyfi í landinu þar til bært yfirvald […] hefur meðhöndlað upprunalega umsókn hans og tekið ákvörðun um hana nema yfirvald þetta hafi sýnt fram á að umsóknin sé augljóst dæmi um misnotkun á samningnum. Umsækjandi ætti einnig að fá að dveljast í landinu á meðan kæra hans til æðra stjórnvalds eða dómstóla er til meðferðar.“

Þetta sagði Rauði krossinn og hlaut ekki áheyrn hjá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar með það. Það er náttúrlega alveg óaðskiljanlegur hluti réttlátrar og skilvirkrar meðferðar hælisumsókna að það sé virk kærumeðferð og hluti af virkri kærumeðferð er að geta dvalist í landinu meðan mál eru til meðferðar.

En það var ekki bara Rauði krossinn sem benti á þetta atriði heldur líka Lögmannafélag Íslands og samtökin No Borders Iceland og fyrir einhverjar sakir voru akkúrat þessir þrír aðilar þeir umsagnarhöfundar sem ekki fengu boð á fund allsherjar- og menntamálanefndar. Sá hópur þingmanna sem myndaði minni hluta í allsherjar- og menntamálanefnd á þessum tíma, þá fulltrúar Pírata, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Samfylkingar, lagði fram sérálit og breytingartillögu í takti við það sem Rauði krossinn lagði til, að ákvörðun um að umsækjandi skuli yfirgefa landið komi ekki til framkvæmda fyrr en ákvörðunin er endanleg á stjórnsýslustigi nema umsækjandi sjálfur óski þess að hverfa úr landi, að það væri engin hjáleið fram hjá því og þetta væri bara undantekningarlaus réttur, vegna þess að þetta er grundvallaratriði. En það að víkja frá þessum grunnrétti er náttúrlega í takti við t.d. það sem við sjáum í því frumvarpi sem er til umfjöllunar hér þar sem er lagt til að stjórnsýslulög nái ekki utan um þær ákvarðanir stjórnsýslunnar sem snúa að umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þarna var sá tónn sleginn, vorið 2017, þar sem meiri hlutinn var til í að sópa til hliðar því grundvallaratriði að stjórnvaldsúrskurðir séu kæranlegir og að kerfinu sé ekki stillt upp þannig að þeir séu kæranlegir að nafninu til (Forseti hringir.) en í reynd verði þeir það ekki vegna þess að viðkomandi haldist ekki í landi á meðan (Forseti hringir.) málið er til vinnslu.