Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Enn í sagnfræðilegu yfirliti útlendingalaga, enn í frumvarpi sem varð að lögum nr. 17/2017, sem væri hægt að kalla fyrsta skref aftur á bak frá þeirri pólitísku samstöðu sem náðist um svona sæmilega mannúðleg útlendingalög árið 2016. Ég held nefnilega ef ég hugsa til baka, lít yfir farinn veg og hugsa hvernig við nálguðumst þessa breytingu 2017, að við höfum ekki áttað okkur á því að þetta væri í rauninni eina leiðin sem lögin væru að fara að ferðast á, í áttina að þrengri og þrengri lagaramma fyrir viðkvæma hópa. Annars held ég að við hefðum spyrnt fastar við fótum. Þó að við hefðum jú, eins og ég nefndi áðan, í minni hluta sem samanstóð af Pírötum, Vinstri grænum og Samfylkingu, lagt fram breytingartillögu sem hefði orðið þess valdandi að kæra frestaði alltaf réttaráhrifum í samræmi við það sem Rauði krossinn og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna mæltu með og þó að við hefðum ekki stutt framgang málsins þá rann þetta auðveldar í gegn en það hefði þurft að gera. Kannski vorum við dálítið bláeyg fyrir því hversu harðsvíraður Sjálfstæðisflokkurinn var sem hélt á þeim tímapunkti á lyklunum að dómsmálaráðuneytinu. Þeir lyklar hafa síðan þrisvar sinnum skipt um hendur en alltaf er það sami flokkurinn sem heldur á kippunni og í tveimur ólíkum ríkisstjórnum á þessu tímabili. Árið 2017 var það ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en síðan um haustið 2017 tóku Vinstri græn og Framsókn að sér að hleypa Sjálfstæðisflokki inn í ráðuneytið. Á þeim tíma sem er liðinn hefur flokkurinn sýnt það æ ofan í æ að hans helsti tilgangur þegar kemur að því að umgangast útlendingalögin er að þrengja þau. Flestar breytingarnar hafa reyndar átt sér stað í framkvæmd, í því að Útlendingastofnun hefur farið að túlka hluti öðruvísi og þrengt þannig réttarstöðu fólks eða með reglugerðarbreytingum sem gengu oft ansi langt, sérstaklega í tíð ráðherrans Sigríðar Á. Andersen, miðað við þann ramma sem löggjöf leyfir.

En það voru ekki eintómar slæmar breytingar sem gerðar voru á þessum lögum fyrstu misserin. Þannig tók allsherjar- og menntamálanefnd sig til í maí 2017 og lagði fram frumvarp ein síns liðs sem varð að lögum nr. 54/2017. Það frumvarp snerist ekki beinlínis um neina efnislega breytingu heldur um að leiðrétta ákvæði sem sneru að erlendum skiptinemum og dvalarleyfum þeirra þar sem aldursskilyrði þurfti að skilgreina upp á nýtt. Það urðu í rauninni mistök við setningu laganna 2016 og með þessari breytingu voru aldursmörk færð þannig að þetta næði yfir nemendaskipti á framhaldsskólastigi þar sem nemendur gætu verið t.d. 16–18 ára. Það er dæmi sem gjarnan er bent á (Forseti hringir.) heildarendurskoðun til tekna, dæmi um þverpólitíska samstöðu, (Forseti hringir.) eitthvað sem öll allsherjar- og menntamálanefnd stóð að.