Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í yfirferð minni yfir flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna ræddi ég m.a. um atvinnuþátttöku flóttamanna. Flóttamannasamningurinn fjallar einmitt um það að ríki eigi að gera slíkt, en eitt af því sem hefur verið rætt í þessari umræðu er hvort ekki sé hægt að auka skilvirkni kerfisins og jafnvel lækka kostnaðinn við móttöku hælisleitenda með því að veita tímabundið atvinnuleyfi strax og umsókn er tekin fyrir. Þá er ég ekki endilega að tala um að allir sem hingað koma og sækja um hæli fái strax atvinnuleyfi heldur a.m.k. þeir sem falla undir þau lönd sem ekki eru á þessum svokallaða lista yfir örugg lönd. Það væri alla vega hægt að horfa á eitthvað slíkt. Það er vel þekkt innan þessa kerfis að um leið og fólk fær tækifæri til þess þá leitar það eftir því að fá atvinnu og við höfum heyrt tölfræði eins og að 80–90% hælisleitenda frá Venesúela séu komin með vinnu bara strax eftir að þau fá þetta leyfi. Ég hef ekki séð tölfræðina fyrir alla en ég hef heyrt að hlutfallið sé dálítið lægra meðal flóttamanna, sérstaklega flóttakvenna, frá Sýrlandi. Þar held ég að sé frekara tækifæri fyrir Ísland, land jafnréttis, til að tækla þann menningarlega mun sem er á milli landanna og tengist því að fara út á vinnumarkaðinn. Ég sé það frekar sem jákvæða áskorun en eitthvað sem okkur ætti að lítast illa á.

Annað sem við höfum séð gerast er að hingað hefur komið fólk sem hefur sótt um hæli af því að það er að flýja einhverjar ákveðnar aðstæður í heimalandi sínu. Það fólk hefur hins vegar ekki möguleika á því síðan að breyta þessu hælisleyfi yfir í atvinnuleyfi ef því tekst að fá vinnu hér. Við hittum t.d. par frá Rússlandi í haust sem hafði verið að mótmæla harðstjórn Pútíns í Rússlandi og flúði land. Þau höfðu rekið ferðaskrifstofu og skipulagt ferðir, m.a. til Íslands, og þegar þau flúðu Rússland vegna stríðsins í Úkraínu og vegna þess að þau óttuðust um líf sitt í Rússlandi þá komu þau hingað, sóttu um hæli og var á sama tíma boðin vinna en gátu ekki verið hér áfram.

Þetta er dæmi sem við þurfum að horfa á. Ég fór líka í fyrri ræðu í gær yfir hversu langur biðtíminn er fyrir fólk utan EES sem sækir um atvinnu- og dvalarleyfi. Hér er verið að afgreiða umsóknir frá því í apríl og júlí í fyrra. Það bíður enginn í sex, sjö mánuði eftir því að fá eitthvert leyfi, þú ert búinn að finna þér aðra vinnu í millitíðinni. Þannig að á tímum sem okkur skortir fólk og við erum með atvinnutækifæri þurfum við virkilega að hugsa (Forseti hringir.) þetta upp á nýtt. — Frú forseti. Það er gaman að breyta og fá nýjan forseta hér og ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá.