Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Við hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir höfum svolítið verið að fjalla um fyrsta griðland eða þessa hugmynd um fyrsta griðland sem stendur til að reyna að innleiða í þessi lög um útlendinga. Mig langaði aðeins að fá að rifja upp það sem Rauði krossinn hefur um þetta að segja. Hann byrjar á því að fjalla um þetta ákvæði sjálft og það sem í því stendur en þar stendur, með leyfi forseta:

„… umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.“ — Og þá sé hægt að synja viðkomandi um efnislega meðferð umsókna um alþjóðlega vernd.

Það er fullkomlega ófyrirséð hvernig Útlendingastofnun ætlar að fara inn í þetta mat og eins og ég hef komið ítarlega inn á eru miklu minni kröfur gerðar til Útlendingastofnunar um að meta aðstæður í þessum löndum sem á að senda fólk til — löndum sem fólk hefur mögulega aldrei komið til og hefur ekki dvalarleyfi í eða neitt slíkt og ekki ríkisborgararétt heldur — en til þess mats sem Útlendingastofnun ber að fara í þegar Útlendingastofnun á að komast að niðurstöðu um hvort það sé sanngjarnt og eðlilegt að viðkomandi flóttamaður færi sig einfaldlega um set í eigin landi. Það er t.d. eitthvað sem var áður en allsherjarstríðið braust út í Úkraínu notað mikið gegn fólki í Úkraínu; ef þú kemur af Krímskaganum geturðu bara komið þér fyrir í Kyiv eða einhvers staðar annars staðar og þarft ekkert að vera að sækja um hæli hér. En þá átti að fara fram miklu umfangsmeira mat á því hvort það væri sanngjarnt og eðlilegt að krefjast þess af viðkomandi flóttamanni að hann settist að í eigin landi nema bara einhvers staðar annars staðar en í sinni heimaborg eða heimasvæði eða hvernig sem það er. Mér finnst það einmitt mjög áhugavert, að það eigi einhvern veginn að vera auðveldara að senda fólk til landa sem það hefur jafnvel aldrei komið til, hefur ekki rétt til dvalar í eða neitt slíkt, heldur en að senda það aftur til síns eigin lands nema þá á eitthvert öruggara svæði eins og Útlendingastofnun skilgreinir það. Þetta kemur einmitt fram í umsögn Rauða krossins á bls. 12, með leyfi forseta:

„Einnig virðist Rauða krossinum sem í tillögu frumvarpsins séu gerðar jafnvel minni kröfur til aðstæðna í fyrsta griðlandi sem móttökuríki en gerðar eru þegar metið er hvort umsækjandi geti leitað verndar með því að flytja sig um set innan eigin heimaríkis […]“ — og þetta er það sem ég er að vísa í — „Í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga segir m.a. að við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði í eigin heimaríki sem talið er öruggt samkvæmt ákvæðinu skuli tekið tillit til ýmissa þátta sem ekki séu tæmandi taldir, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun og að við matið skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í framkvæmd hefur einnig verið lögð rík áhersla á að umsækjandi eigi félagslegt bakland á því svæði hvar honum er ætlað að setjast að.“

Engin slík sjónarmið eru rakin í frumvarpinu þar sem það á að senda fólk bara eitthvert, þangað sem Útlendingastofnun finnst að það eigi að fara. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu“ — sem sagt þetta frumvarp sem við erum að ræða núna — „segir að við mat á því hvað teljist sanngjarnt og eðlilegt samkvæmt hinum nýja d-lið skuli m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu.“ — viðkomandi þarf sem sagt ekki að hafa rétt til dvalar í ríkinu — „Getur ákvæðið þannig einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það, s.s. þegar maki umsækjandans er ríkisborgari þess og getur á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi. Rauði krossinn telur að við gerð frumvarpsins hafi verið lögð óeðlileg áhersla á tengsl umsækjenda við mögulegt móttökuríki fremur en vernd flóttamanna.“

Ég get algerlega tekið undir það sem Rauði krossinn segir hér, að það sé ótækt að atriði á borð við tengsl við ríki sem umsækjandi hefur aldrei komið til geti orðið grundvöllur að synjun á að taka umsókn til efnismeðferðar. Þetta er einmitt formálinn að því að það eigi svo að svipta fólk þjónustu, að það sé ekki hægt að senda það til landsvæða sem það hefur aldrei komið til og hefur engan rétt til dvalar í. Þá er þeim synjað um efnismeðferð (Forseti hringir.) og þau eiga að gjöra svo vel að fara til ríkis sem þau hafa enga möguleika á að fara til vegna þess að þau eru ekki einu sinni með dvalarleyfi þar. Þetta er svo sturlað, virðulegi forseti.