Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Sagnfræðilegt yfirlit breytinga á útlendingalögum heldur áfram. Ég var að ljúka umfjöllun um þriðju breytingalögin sem samþykkt hafa verið frá því að lög um útlendinga voru samþykkt 2016. Það voru í fyrsta lagi lög nr. 124/2016, sem var bráðabirgðaákvæði um að kæra frestaði ekki réttaráhrifum. Síðan voru það lög nr. 17/2017, þar sem það að kæra fresti ekki réttaráhrifum var gert að varanlegu ákvæði. Bæði þessi lög eiga það sammerkt að ekki náðist full samstaða hér á þingi um þau þannig að sú samstaða sem náðist upphaflega í kringum heildarendurskoðun laganna rofnaði strax. Svo hér í síðustu ræðu fór ég yfir lög nr. 54/2017, þar sem aftur örlaði á samstöðunni þar sem öll allsherjar- og menntamálanefnd stóð að framlagningu þess frumvarps. Það var í rauninni bara einföld leiðrétting á einhverju sem hafði breyst frá eldri lögum við heildarendurskoðunina en sú breyting hafði ekki verið tilætluð, þ.e. aldursmörk varðandi dvalarleyfi skiptinema höfðu óvart breyst þannig ekki var hægt að gefa út dvalarleyfi til skiptinema sem komu á neðra skólastigi, fólk undir 18 ára aldri lenti úti í kuldanum. Þessu var kippt í liðinn hratt og í þverpólitískri sátt.

Hér erum við komin á mitt ár 2017. Síðan fer að líða á haustið og þá koma einstök mál í fréttirnar, eins og það heitir. Fólki er stundum legið á hálsi fyrir að tala um útlendingamálin og sérstaklega málefni flóttafólks út frá einstökum málum en það eru einmitt þau sem geta sýnt okkur fram á vankanta í kerfinu. Það er engin leið að meta mannúð, sem er eitt af markmiðum útlendingalaganna, öðruvísi en út frá manneskjum þannig að það að einstök mál hreyfi við fólki er bara nákvæmlega það sem þau eiga að gera. Það gerðist akkúrat þarna síðsumars 2017 og inn í haustið þegar mál tveggja óskyldra flóttastúlkna komu í fréttirnar. Þær Mary og Haniye og fjölskyldur þeirra voru í þeirri stöðu að hafa verið hér á landi um nokkra hríð og fest rætur og eignast vini og farið í skóla og lært tungumálið og bara lært að þykja mjög vænt um Ísland. En þá kom það boð frá Útlendingastofnun að til stæði að vísa þeim aftur, að mig minnir, á götuna í Grikklandi í öðru tilvikinu. Þetta voru tvö ólík mál en snerust sem sagt um að endursenda fólk í verri aðstæður en það gat notið hér. Þetta varð mjög heitt mál og gekk svo langt að hér inni á þingi lagði stór hópur þingmanna, hvort það var ekki næstum helmingur þingheims, fram frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar til að þær tvær og fjölskyldur þeirra fengju einfaldlega íslenskt ríkisfang og gætu þannig verið hér á landi. Það var eftir á að hyggja kannski ekki besta leiðin til að tryggja að þær fengju alla þá þjónustu sem þær höfðu þörf fyrir en þetta var ákveðið örþrifaráð, til þess að gera eitthvað. Á sama tíma var unnið að hefðbundnari lausn sem á endanum náðist utan um og kom vel út. Þar var einmitt reynt að ná þessari fullu þverpólitísku (Forseti hringir.) samstöðu, en ég kem að því síðar.