Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:25]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Aftur að þeirri breytingu sem var gerð á útlendingalögum haustið 2017, bara aðeins að rifja upp hvers konar umbrotatímar voru þarna. Þarna var orðinn ansi stuttur þráðurinn í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Um sumarið komu upp nokkur mál sem reyndu dálítið á samstarfið. Ég man t.d. að við þurftum að boða til opins fundar í allsherjar- og menntamálanefnd í sumarhléinu, sem er óvanalegt, vegna frétta af því að allt í einu hefði lögregla birst vopnuð á Color run, litahlaupinu. Þar sem fjölskyldur skokka um miðbæinn og láta strá yfir sig marglitu kartöflumjöli var allt í einu talin ástæða til að hafa vopnaða lögreglu án þess að nokkuð hafi komið fram um að það væri eitthvert hækkað hættustig í samfélaginu eða eitthvað annað. En það er svo sem engin nýlunda að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu ólíkindatól og breyti ýmissi framkvæmd að því er virðist nokkuð handahófskennt. Þarna var líka að komast í hámæli málið sem kennt er við uppreist æru þannig að sumarið fór dálítið í það að — það reyndi mikið á taugarnar í stjórnarliðinu. Síðan gerðist það þarna um haustið að þessi tvö mál komust í fréttir, þá þessar tvær stúlkur sem síðan var lagt til fyrst að fengju ríkisborgararétt, þær Mary og Haniye. Þær komust í fréttir vegna þess að stoðdeild ríkislögreglustjóra tilkynnti þeim að það ætti að fylgja þeim og fjölskyldum þeirra úr landi í september.

Aftur komum við að mannúðinni í útlendingalögunum. Þarna var fólk að upplifa fréttir af þessu tagi í fyrsta sinn, að sjá manneskjur sem væru komnar hingað til að leita skjóls frá ómögulegu ástandi. Fjölskyldurnar voru fyrst að flýja heimalönd sín, Nígeríu og Afganistan, og höfðu farið í gegnum annars vegar Ítalíu og Þýskaland og hins vegar Grikkland og þangað átti að senda þær aftur. Almenningi ofbauð þetta. Við sáum hávær mótmæli hér. Þingmenn fóru ekki varhluta af því að fólki væri misboðið. Við fengum alveg holskeflu af áskorunum um að gera eitthvað. Svo bara hitti þetta á dálítið heppilegan tíma af því þarna varð aftur svona pólitískt tómarúm þar sem fólki leyfist að hugsa dálítið skapandi og út fyrir boxið. Það er eins og fólk hafi verið undir fávísisfeldi Rawls vegna þess að stjórnin sprakk, það var boðað til kosninga og enginn vissi hver yrði í stjórn með hverjum eftir kosningar. Við þurftum að láta eins og við (Forseti hringir.) gætum mögulega lent í stjórn með öllum og það leiddi kannski til þess að fólk var opnara fyrir því að ná sameiginlegri niðurstöðu þvert á flokkslínur. En áfram með það síðar.