Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við höfum verið að fjalla um að það standi til að stórfjölga í hópi heimilislausra á Íslandi með samþykkt þessa frumvarps. Við höfum verulegar áhyggjur af þeim fyrirætlunum, sér í lagi vegna þess að það liggur fyrir að ásetningurinn á bak við það sé að svelta fólk til hlýðni, að neyða það til að yfirgefa landið jafnvel þótt það hafi ekki í nein önnur hús að venda.

Mig langar að drepa hér niður í umsögn Rauða krossins, á bls. 13, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„… beiting reglunnar um fyrsta griðland án þess að gengið sé úr skugga um að móttökuríkið taki á móti umsækjandanum myndi fela í sér brot á ákvæði“ reglugerðar Evrópusambandsins, sýnist mér á öllu hérna í samhengi.

Enn fremur hvílir sönnunarbyrði á ríkinu sem hefur umsókn um vernd til meðferðar að ganga úr skugga um að umsækjandinn hafi aðgang að vernd í móttökuríkinu. Að þessu sögðu kveðst Flóttamannastofnun hafa ríkar áhyggjur af b-lið ákvæðisins því þar sé aðeins vísað til meginreglunnar um „non-refoulment“ eða banni við endursendingum.

„… bendir stofnunin, sem fyrr segir, á að samkvæmt Flóttamannasamningnum eigi flóttamenn að njóta ríkari réttinda en felast í þeirri meginreglu. Að mati Flóttamannastofnunarinnar verði sú vernd sem sé til staðar í þriðja ríkinu að vera virk (e. effective) og aðgengileg (e. available).“

Þar af leiðandi skal geta móttökuríkis til að veita virka vernd í raun vera tekin til skoðunar sérstaklega ef móttökuríki er þegar með mikinn fjölda flóttamanna. Þetta er eitthvað sem við ætlum samt að gera. Við ætlum að reyna að senda fleiri til t.d. Grikklands en ekki bara til Grikklands heldur til landa utan Dyflinnarsamkomulagsins. Það er það sem mér finnst svo stórkostlega sturlað, virðulegi forseti, vegna þess að það er í fyrsta lagi ekki framkvæmanlegt og mun í öðru lagi stórauka heimilisleysi og örbirgð á Íslandi.

Ég hef lítið sem ekkert fjallað um breytingu á afmörkun 12 mánaða frests. Það er mjög mikilvægt að fjalla um það atriði vegna þess að hér er verið að stíga mjög vont skref aftur á bak í réttarvernd flóttafólks og líka í skilvirkni kerfisins, þessari margræddu skilvirkni sem alltaf er verið að vísa í sem ástæðuna fyrir þessu frumvarpi, sem er algjört bull.

Í umsögn Rauða krossins um frumvarpið kemur fram á bls. 15, með leyfi forseta:

„C-liður 8. gr. frumvarpsins kveður á um efnislegar breytingar á 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. útl. sem fjallar um það hvenær umsækjendur öðlast rétt til efnismeðferðar vegna þess að afgreiðsla umsóknar þeirra hefur dregist. Leggst Rauði krossinn alfarið gegn umræddri breytingu enda mun hún leiða til verulegrar réttarskerðingar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og t.a.m. leiða til þess að börn öðlast engan rétt til dvalar eftir birtingu lokaúrskurðar í máli þeirra, þrátt fyrir að barn dvelji hér á landi lengur en 12 mánuði.

Í núgildandi lögum geta umsækjendur fengið efnismeðferð vegna tafa á afgreiðslu umsókna allt þar til þeir yfirgefa landið. Þannig er nú miðað við heildardvalartíma umsækjanda á landinu, þ.e.a.s. þann tíma frá því að umsókn er lögð fram og þar til flutningur úr landi fer fram. Í athugasemdum með greininni segir að óljóst orðalag gildandi ákvæðis um lokafrest hafi í framkvæmd leitt til þess að ákvæðið sé túlkað á annan veg en sambærilegt ákvæði 2. mgr. 74. gr. laganna. Lagt er til að orðalag þessara tveggja ákvæða verði samræmt og taki mið af orðalagi 2. mgr. 74. gr. laganna þannig að lokafrestur sé skýr og miði við þann tíma þegar máli er lokið á stjórnsýslustigi, þ.e. með ákvörðun Útlendingastofnunar eða eftir atvikum úrskurði kærunefndar útlendingamála. Rauði krossinn telur eðlilegra að samræma ákvæði laganna á þann hátt að 2. mgr. 74. gr. taki mið af núgildandi ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. en brýnt tilefni er, að mati Rauða krossins, til að skilgreina málsmeðferðartíma á heildstæðan hátt, allt frá því að fólk leggur fram umsókn og þangað til það yfirgefur landið, en ekki aðeins þann tíma sem mál er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála líkt og nú er gert. Er þetta sérstaklega mikilvægt þegar um börn er að ræða en hingað til hefur verið samstaða um að hagsmunir barna hnígi til þess að löng dvöl barns hér á landi skapi rétt til áframhaldandi dvalar og búsetu, í raun óháð því hvenær stjórnvöld komust að niðurstöðu um að foreldrar barnsins ættu ekki rétt á efnismeðferð/vernd hér á landi.“

Þetta er mjög mikilvægt atriði, virðulegi forseti, sem ég vil fara yfir í næstu ræðu og óska því eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.