Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:53]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, nú erum við Píratar búin að tala frá kl. 10:30 í morgun, í dagsljósi a.m.k., um hinar fjölmörgu greinar þess stórgallaða frumvarps sem verið er að fjalla um hér, um útlendinga og alþjóðlega vernd. Við erum búin að benda á það að atriði í þessu frumvarpi stangast á við stjórnarskrá. Við erum búin að benda á að atriði í þessu frumvarpi stangast á við mannréttindasáttmála Evrópu. Við erum búin að benda á það að ákvæði í þessu frumvarpi stangast á við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við erum búin að benda á það að ákvæði í þessu frumvarpi stangast á við samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk. Að lokum erum við búin að benda á það að ákvæði þessa frumvarps stangast á við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna.

Við Píratar erum ekki búin að vera ein að benda á þetta. Nei, það eru fjölmargir umsagnaraðilar, reyndar nær allir umsagnaraðilar, sem benda á þessi atriði. Það eru ekki bara einhverjir umsagnaraðilar úti í bæ, ekki einhverjir umsagnaraðilar sem hafa neitt annað en mannréttindi og mannúð að leiðarljósi; Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, Kvenréttindafélagið, Rauði krossinn, Amnesty, Barnaheill, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og lengi mætti telja. En það virðist vera alveg sama hvað við bendum á. Stjórnarliðar ætla að hlusta endalaust á þau skilaboð að ekkert megi laga því þá líti dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, illa út, eitthvað sem hann er alveg nógu duglegur við að gera sjálfur í öllum sínum embættisverkum óháð þessu frumvarpi. Það er ekki hlustað á það að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða, nokkuð sem hv. þingmenn, allir, hvort sem þeir eru hér sem hæstv. ráðherrar, hvort sem þeir eru hér sem hv. stjórnarþingmenn, hvort sem þeir eru hér sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, hafa svarið drengskapareið um að framfylgja.

Ég lýsti því yfir í nótt að mér þætti mjög skrýtið ef þeir þingmenn sem viljandi og vísvitandi ganga gegn stjórnarskránni eftir öll þessi varúðarorð — og ef mál fara fyrir dómstól, hvort sem það er dómstóll hér á landi eða Mannréttindadómstóll Evrópu sem dæmir þetta frumvarp eða þær breytingar sem þetta frumvarp gerir brot á stjórnarskrá eða brot á mannréttindasáttmála Evrópu eða brot á alþjóðasamningum sem Ísland hefur gerst aðili að, þá geti þeir þingmenn sem greitt hafa atkvæði með stjórnarskrárbroti og mannréttindabrotum ekki setið á Alþingi ef einhver snefill af siðferði er í þeim. Ég minni hv. þingmenn á að hér erum við að tala um mjög alvarlegt mál.