Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held áfram með sögurnar af lögreglunni í frumskógi næturlífs Reykjavíkur árið 1983, með leyfi forseta:

„Sögur þessar eru svo gjörsamlega samhljóða og margar að það verður æ örðugra að vísa þeim frá sér einsog hverjum öðrum uppspuna. Annað er það sem fylgir þessum sögum eins og harðneskjan heimskunni, og það er sú fullyrðing að tilgangslaust sé með öllu að hefja mál útaf þvílíkum tilvikum. Þau fari bara í rannsókn hjá annari lögregludeild þar sem sitji einvalalið og líti á það sem konunglega skyldu sína að hvítþvo kollegana.

Þessvegna liggja fórnardýr lögregluhrottanna útí vonleysinu og þurft getur að bíða árum saman eftir tækifæri til að ræða málefni þeirra af nokkru viti.

Nú er kannski eitt af þessum sjaldgæfu tækifærum. Þessvegna er ég að skrifa þér bréfið atarna.

Mér sýnist harla augljóst að hér sé verulega pottur brotinn í sjálfu því kerfi sem yfirmenn þess virðast hafa brenglaða réttlætisvitund og misnota aðstöðu sína til þess að lofa hrottum og illmennum að þægja sínu brenglaða tilfinningalífi — það virðist einu gilda hver fyrir verður. Mér sýnist lögreglustjórinn í Reykjavík meiraðsegja þónokkuð borubrattur þegar hann neitar að víkja barsmíðamönnum sínum úr starfi meðan á rannsókn Skaftamálsins stendur. Virðist harla öruggur með sig þó skjólstæðingur framsóknar eigi í hlut. Við sjáum hvað setur.

Jafnvel þó Skafti fengi sitt fram væri það undantekning sem engu breytir um það að fórnardýr þessa hrottaskapar mundu halda áfram að hrannast upp. Og þögnin mundi umlykja þau framvegis sem hingaðtil.

Mér sýnist þetta alvarlega mein liggja í sjálfu því kerfi að lögreglumenn skuli rannsaka það hvort aðrir lögreglumenn hafi orðið offari í starfi sínu. Og þetta er líka álit margra annara mér hæfari manna á þessu máli — enda þótt enginn þeirra áræði að kveða uppúr með skoðun sína af hræðslu við barsmíð og hefndir.

Svona er þetta mál alvarlegt.

Tveim forvera þinna í stöðu dómsmálaráðherra skrifaði ég um þessi mál. Hvorugur þeirra hafði kurteisi til að svara bréfum mínum, hvað þá annað.

Undanfarna daga hef ég verið að skoða myndir af þér í blöðunum og mér sýnist á þér svo heiðríkur og drengilegur svipur með þvílíkri festu að ég hef um það vísa von að slíkum svip gæti hæglega slegið inní sálina, jafnvel þó hann væri upphaflega bara hugsaður fyrir ljósmyndarann.

Þessvegna reyni ég nú að skrifa þér líka.

Tillaga mín til þín er sú sama og ég hef áður borið fram:

Taktu þessi barsmíðamál lögreglunnar útúr þeirri sjálfvirku kattarþvottavél sem þau nú eru í. Meðan lögreglumenn fá að þvo hver öðrum í þessum málum verður aldrei hugað að því sem máli skiptir; að greindarprófa menn og karakterprófa áðuren farið er að kenna þeim lífshættuleg fantabrögð, að láta þá svara til saka fyrir stundaræði sitt ef þá henda mistök, að gera lögregluna að hæfu liði sem óhætt væri að fela það vald sem þessir menn lögum samkvæmt hafa.

En hvaða leið er þá útúr kerfinu?

Skipa verður óháða nefnd valmenna til að kanna í botn hver fótur er fyrir því almenningsáliti, sem óneitanlega er staðreynd, að hrottaskapur Reykjavíkurlögreglunnar færist óðum í vöxt og sé með óeðlilegum hætti verndaður. Þessi nefnd gæti auglýst eftir fórnardýrum lögreglunnar og safnað frásögnum þeirra og sannprófað í mörgum tilvikum, komist þá væntanlega að niðurstöðu um það hvort hér er ekki um að ræða tiltölulega fáa einstaklinga sem ráðleggja mætti að fá sér annan starfa.

Ég hef það á tilfinningunni að Lögregluvandamálið sé nokkuð svipað því margumrædda Unglingavandamáli að því leytinu til, að það eru tiltölulega fáir einstaklingar sem koma óorði þessu á lögregluna alla. Og þá ekki þeir greindustu né bestu.

Margt gott hefi ég séð til lögreglunnar hér í bæ og margan fyrirmyndarmanninn hef ég þar fyrirhitt. Án þeirra getum við ekki verið. En mér finnst ég skulda piltinum unga þarna á Borgarspítalanum forðum það að herða mig uppí þessa uppástungu: að reynt verði að hreinsa til svo það ævintýrafólk sem leggur útí frumskóga næturlífsins í Reykjavík sé minstakosti óhult fyrir lögreglunni.“

Ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.