Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég klára hérna að lesa greinina úr fyrri ræðum, með leyfi forseta:

„Nóg er samt um önnur villidýr.

Fyrir dómi er stundum sett fram varakrafa til að fylgja eftir náist meginkrafan ekki fram. Sinnir þú, Jón Helgason, ekki þeirri kröfu að láta rannsaka fyrrgreind mál skora ég á einhvern dugandi blaðamann (t.d. Skafta) að setjast við þessa rannsókn og birta hana í bók sem vafalaust myndi renna út einsog heitar lummur. Sjálfur væri ég alveg reiðubúinn að taka þátt í slíku starfi hvenær sem er.

Með vinsemd og virðingu, Þorgeir Þorgeirsson.“

Þessi Þorgeir var fyrir þessa grein dæmdur í Hæstarétti árið 1987 fyrir greinaskrif um lögregluna í Morgunblaðið árið 1983. Les ég hérna úr grein á Wikipediu sem fjallar aðeins um þetta:

„Dæmt var á grundvelli 108. gr. hegningarlaga, sem þá meinaði fólki að segja satt um opinbera embættismenn, væri það gert „ótilhlýðilega“. Í greinunum hafði Þorgeir reifað frásagnir fólks af atvikum þar sem lögreglan beitti tilhæfulausu ofbeldi í starfi sínu svo menn hlutu líkamstjón af, jafnvel örkuml. Hann var kærður og dæmdur í nokkrum liðum, meðal annars fyrir orðalag á við „einkenniskædd villidýr“ og „lögregluhrottar“. Þorgeir kærði dómsúrskurðinn til Mannréttindadómstóls Evrópu árið 1988 sem brot á ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Þorgeir var fyrstur ólöglærðra manna til að flytja mál sitt sjálfur fyrir dómstólnum og fyrstur Íslendinga til að höfða þar mál. Árið 1992 felldi dómurinn úrskurð Þorgeiri í hag og sagði að með 108. grein hegningarlaga bryti íslenska ríkið á 10. grein mannréttindasáttmálans, um tjáningarfrelsi. Dómurinn hafði gríðarleg áhrif á íslenskt réttarfar.“

Nú er ég hérna með frumvarp sem var flutt á þingi nokkrum árum seinna, sem vitnar einmitt í þennan dóm og ástæðu þess að það sé verið að flytja þetta lagafrumvarp, með leyfi forseta:

„Þann 25. júní 1992 gekk dómur á hendur íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt samningi um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950, sem það fullgilti 19. júní 1953, en þetta var í máli sem kom til vegna kæru Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar á hendur því. Í framhaldi af þessu skipaði dómsmálaráðherra nefnd þann 8. júlí 1992 til að gera tillögur um viðbrögð við dóminum. Meðal verkefna nefndarinnar var að kanna hvort tímabært væri að lögfesta hér á landi fyrrnefndan samning ásamt viðaukum við hann, eða mannréttindasáttmála Evrópu eins og samningurinn og viðaukar við hann eru almennt nefndir í einu lagi, og undirbúa þá eftir atvikum frumvarp til laga um það efni.

Í nefndina voru skipuð Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi ráðherra, sem var jafnframt formaður nefndarinnar, Björn Bjarnason alþingismaður, Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður, Markús Sigurbjörnsson prófessor, og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður. Með nefndinni starfaði Jón Thors, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þá aðstoðaði Guðrún Gauksdóttir lögfræðingur nefndina í nokkrum atriðum.

Í starfi sínu komst nefndin meðal annars að þeirri niðurstöðu að rétt væri að leggja til að mannréttindasáttmáli Evrópu yrði lögtekinn hér á landi, en sú niðurstaða var einkum byggð á því að lögfesting sáttmálans yrði til að auka réttaröryggi. Í samræmi við erindisbréf sitt samdi því nefndin frumvarp það sem hér er flutt. Nefndarmenn, aðrir en Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, voru sammála um þessa frumvarpsgerð. Ragnar lagði hins vegar fram sératkvæði þar sem hann leggur til að einungis efnisákvæði mannréttindasáttmálans verði lögfest. Með sératkvæði hans fylgdi frumvarp til laga um slíka lögfestingu sáttmálans svo og greinargerð sem Guðrún Gauksdóttir lögfræðingur tók saman fyrir nefndina og nefnist: Frumathugun á því hvort breyta þurfi ákvæðum í íslenskri löggjöf við lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu.“

Forseti. Vinsamlegast bætið mér aftur á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram að lýsa uppruna þeirra réttinda sem við erum hér að verja í dag.