Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Hérna er verið að fjalla um þau neikvæðu áhrif sem þetta frumvarp hefur, sér í lagi ákvæði frumvarpsins sem felur í sér breytingu á afmörkun 12 mánaða frests, sem er c-liður 8. gr. frumvarpsins. Ég var áðan að fjalla um mál sem ég held að sé einmitt aðalástæðan fyrir þessari lagabreytingu. Að mörgu leyti er þetta frumvarp eiginlega allt viðbragð við réttmætri samúð og réttmætri reiði almennings gagnvart því hvernig við förum með flóttafólk. Það er verið að auðvelda stjórnvöldum að koma í veg fyrir að almenningur verði þess áskynja að verið sé að brjóta á réttindum flóttafólks með því að auðvelda brottflutning þess úr landi einn, tveir og þrír og það er verið að búa til aðstæður sem gerir stjórnvöldum kleift að reyna að þvinga fólk úr landi með því í raun að svelta það til hlýðni.

Ég var að vísa í bls. 16 í umsögn Rauða krossins um þetta frumvarp og finnst rétt að koma aftur inn á þau mótmæli sem áttu sér stað árið 2019, sem komið er inn á í umsögninni, þegar nemendur í Hagaskóla mótmæltu endursendingu 15 ára skólasystur sinnar, Zainab Safari, til Grikklands og á sama tíma stóð til að vísa einstæðum föður og tveimur sonur hans til Grikklands. Eftir mikla umfjöllun fjölmiðla, mótmæli og undirskriftasafnanir gerði dómsmálaráðuneytið breytingu á reglugerð um útlendinga þar sem Útlendingastofnun var gert heimilt að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem fengið hefur vernd í öðru ríki séu meira en tíu mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum. Þessi reglugerðarbreyting var gerð til að koma í veg fyrir flutning á börnum og foreldrum þeirra til Grikklands þar sem þau höfðu hlotið alþjóðlega vernd. Ég lauk máli mína síðast á að segja það sem kemur fram í umsögninni, að óljóst sé hvað verður um ákvæði reglugerðarinnar verði ákvæðið um að afnema þennan 12 mánaða frest eða breyta honum verulega samþykkt óbreytt. Með leyfi forseta:

„Einn megintilgangurinn með setningu ákvæða um tímafresti er að tryggja umsækjendum ákveðna vernd þegar afgreiðsla umsókna þeirra dregst úr hófi fram. Almennt er fólk sammála um að óhóflegur dráttur á afgreiðslu umsókna sé til þess fallinn að skaða hagsmuni umsækjenda enda augljóst að langvarandi óvissa um framtíðaráform, dvalarstað og öryggi getur haft verulega neikvæð áhrif á heilsu og velferð einstaklinga. Þá er almennt viðurkennt að þessum sjónarmiðum sé gefið ríkara vægi við ákvarðanatöku er varða börn.“ — Og það er alveg rétt.

„Rauði krossinn leggur til að ákvæði 2. mgr. 36. gr., sem fjallar um það hvenær umsækjendur öðlast rétt til efnismeðferðar vegna þess að afgreiðsla umsóknar þeirra hefur dregist, standi óbreytt en að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laganna verði breytt til samræmis við 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. gildandi laga þannig að ætíð verði miðað við heildardvalartíma hér á landi en ekki ákvarðanir Útlendingastofnunar og/eða úrskurði kærunefndar útlendingamála.

C-liður 8. gr. frumvarpsins kveður jafnframt á um breytingar á síðari málsl. 2. mgr. 36. gr. útl. sem fela í sér nánari skýringar á því hvenær tafir á afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd er á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ekki einungis umsækjandi sjálfur geti verið ábyrgur fyrir töf á eigin máli heldur einnig maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd. Í athugasemdum við c-lið 8. gr. frumvarpsins segir að óskýrt orðalag gildandi ákvæðis hafi skapað óvissu og möguleika til misnotkunar, sérstaklega þegar um fjölskyldur eða fólk í hjúskap sé að ræða. Rétt þyki að skýrt verði kveðið á um í lögum að tafir maka eða sambúðarmaka umsækjanda eða þess sem kemur fram fyrir hans hönd, t.d. foreldra, umsjónarmanna og talsmanna, leiði ekki til þess að umsækjandi hljóti efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins Í 2. mgr. 36. gr. laganna. Þá segir í c-lið 8. gr. frumvarpsins að við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls skuli m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi dvalist á ókunnum stað um tíma, framvísað fölsuðum skjölum eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti ekki sýnt samstarfsvilja við meðferð, úrlausn eða framkvæmd máls. Teljist umsækjandi á einhverjum tíma hafa tafið mál sitt samkvæmt framangreindu á hann ekki rétt á efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins skv. 2. mgr. 36. gr.“

Þetta er ákvæði sem mannréttindasamtök barna hafa verið að benda á að geti bitnað allverulega á réttindum barna á flótta og ég mun koma nánar inn á það í síðari ræðu.