Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Sumir þingmenn hafa fagnað því í dag að geta rætt málið í dagsbirtu en ég er dálítið ánægður með að það sé farið að rökkva og við farin að sjá ljósin á vetrarhátíðinni. Það er fallegt að horfa yfir Austurvöllinn og það verður gaman hjá okkur í kvöld.

Mér datt í hug þegar hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir talaði um mál Zainab Safari frá árinu 2019, þar sem hæstv. dómsmálaráðherra brást við með því að breyta reglugerð þannig að tímafrestir voru rýmkaðir fyrir börn, að sú breyting er í rauninni ekkert svo ólík, jafnvel næstum því alveg eins og sú breyting sem var gerð haustið 2017 með lagasetningu, með lögum nr. 81/2017, og af sömu orsök. Þar voru stúlkur á flótta sem náðu inn að hjartarótum hjá almenningi og á endanum varð stjórnvöldum augljóst að það þyrfti að bregðast við. En mér sýnist á því að ráðherrann hafi valið þá leið 2019 að setja reglugerð að eitthvað hafi þau lært af reynslunni 2017 sem hafi fengið þau til að vilja ekki taka svona breytingar í gegnum þingið. Ég velti fyrir mér hvað það gæti verið, hvort reglugerð sé mildara viðbragð vegna þess að það er hægt að taka hana til baka. Hún er ekki varanleg á sama hátt og lagabreyting. Finnst þeim óþægilegt að það hafi verið sett þarna ákvæði inn í lög, að það sé fordæmi sem þau vilja ekki fylgja vegna þess að þá gæti fólki dottið í hug að setja alls konar annað ívilnandi í þágu fólks á flótta inn í lög? Ég veit það ekki. Ég hafði bara aldrei tengt þetta tvennt saman áður.

Í fyrri ræðu minni var ég aðeins að fara yfir stúlkurnar á bak við mótmælin sem áttu sér stað hérna síðsumars 2017. Annars vegar er það Haniye sem er dóttir manns sem fæddist í Afganistan en flúði til Írans fyrir 25 árum og þar fæddist Haniye og varð, eins og ég sagði áðan, ríkisfangslaus við fæðingu. Alveg eins og fólk í svokallaðri umborinni dvöl lendir í hér á landi, hópur sem stjórnarliðar vilja stækka með því frumvarpi sem við ræðum í dag. Hins vegar er það hún Mary. Hún kom hingað til lands ásamt foreldrum sínum, þeim Sunday og Joy. Hún er líka fædd á flótta en foreldrar hennar flúðu heimalandið Nígeríu sitt í hvoru lagi og kynntust á flóttanum. Sunday flúði pólitískar ofsóknir og Joy er síðan fórnarlamb mansals. Það stóð til að vísa þeim aftur til Nígeríu en þangað hefur Mary aldrei komið.

Aftur að fólkinu í umborinni dvöl, sem Rauði krossinn fjallar um í skýrslunni sem við ræddum hér í þaula í gær, en Nígería er einmitt eitt af þeim löndum sem ekki tekur á móti ríkisborgurum í þvingaðri brottvísun. Nígería tekur á móti sínum ríkisborgurum ef fólk vill fara þangað en ef það þarf lögreglufylgd til að pína það til að fara til síns heima þá segir Nígería bara: Nei, þetta viljum við ekki. Við viljum ekki neyða fólk til að koma til okkar. Þar að auki er áhugavert að Joy sé þolandi mansals, sem er einmitt einn af hópunum sem virðist sneitt fram hjá í sumum ívilnandi ákvæðum þess frumvarps sem við erum að fjalla um hér í dag. Þannig að hliðstæðurnar stökkva náttúrlega á okkur úr hverju horni. (Forseti hringir.) — Mig langar að halda áfram með þetta aðeins á eftir.