Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að lesa úr greinargerð frumvarps til laga um mannréttindasáttmála Evrópu sem var flutt á 117. löggjafarþingi og varð síðan að lögum í kjölfarið, því það er mikilvægt að átta sig á því hvaðan við erum að koma til þess að geta vitað hvert við erum að fara. Ég held áfram með lesturinn, með leyfi forseta:

„Sératkvæðið og fylgiskjöl þess eru prentuð sem viðauki með lagafrumvarpi þessu. Þá samdi nefndin athugasemdir þær sem hér fylgja frumvarpinu. Nefndin hafði við samningu frumvarpsins meðal annars hliðsjón af undirbúningi að nýsettum lögum um sama efni í Danmörku.“ — svo verið sé að herma eftir nágrannaþjóðum okkar, forseti — „Rétt er að taka fram að nefndinni var ekki falið að taka afstöðu til þess hvort ástæða væri til að lögfesta hér á landi ákvæði annarra alþjóðasamninga um mannréttindi sem íslenska ríkið hefur gerst aðili að, og hefur hún því ekki fjallað sérstaklega um það.

Eftirfarandi athugasemdum við frumvarpið er skipt í tvo meginþætti. Annars vegar eru almennar athugasemdir þar sem einkum er fjallað um aðdragandann að gerð mannréttindasáttmála Evrópu, réttindin sem vernduð eru af ákvæðum hans, hvernig farið er með kæru á broti gegn sáttmálanum, lagaleg áhrif sáttmálans í þeim ríkjum sem hafa gerst aðilar að honum, stöðu íslensks réttar gagnvart sáttmálanum, nánari röksemdir fyrir tillögu um að sáttmálinn verði lögfestur hér á landi og hver áhrif það hefði á íslenskan rétt að sú tillaga næði fram að ganga með samþykkt þessa frumvarps. Hins vegar eru síðan athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins.“

Hér er I. kafli, með leyfi forseta:

„I. Aðdragandi að gerð mannréttindasáttmála Evrópu, gildistaka hans og síðari breytingar á honum.

Þegar leið á síðari heimstyrjöldina beindist veruleg athygli að þeim stórfelldu brotum á mannréttindum sem áttu sér stað fyrir upphaf stríðsins og á árum þess í ýmsum þeim ríkjum sem biðu þar að endingu lægri hlut og á hernámssvæðum þeirra. Þau viðhorf hlutu mikið fylgi að nauðsynlegt væri að þjóðir heims gerðu sameiginlegt átak til að fyrirbyggja slík mannréttindabrot. Þetta hafði bein áhrif á mótun sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var undirritaður 26. júní 1945, en í 1. gr. hans kemur fram að eitt helsta markmið Sameinuðu þjóðanna sé að efla mannréttindi og stuðla að aukinni virðingu fyrir þeim án tillits til kynþáttar, kynferðis, tungu eða trúarbragða. Á grundvelli ályktunar Alþingis frá 25. júlí 1946 gekk Ísland í Sameinuðu þjóðirnar 19. nóvember 1946, sbr. auglýsingu nr. 91 frá því ári.

Stefnumörkun í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Til að fylgja frekar eftir þessu markmiði sáttmála Sameinuðu þjóðanna var þegar á fyrstu starfsárum þeirra sett á fót sérstök mannréttindanefnd sem var falið að semja drög að alþjóðlegri mannréttindaskrá. Nefndin hóf þetta starf í janúar 1947 og lauk því sumarið 1948, en drög hennar voru lögð fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þá um haustið. Á allsherjarþinginu voru skiptar skoðanir um efni draganna, en sérstök nefnd vann að samræmingu sjónarmiða og gerði talsverðar breytingar á drögunum án þess að full samstaða næðist um þau. Í desember 1948 voru drögin með áorðnum breytingum allt að einu samþykkt án mótatkvæða á allsherjarþinginu sem mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Í inngangi að yfirlýsingunni er meðal annars vísað til þess að með sáttmála Sameinuðu þjóðanna hafi þau ríki, sem eiga aðild að þeim, skuldbundið sig til að virða mannréttindi og jafnrétti, en í því ljósi sé nauðsynlegt að allar þjóðirnar leggi sama skilning í hver þessi réttindi séu. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi af þessum sökum samþykkt mannréttindayfirlýsinguna til fyrirmyndar öllum þjóðum í þessum efnum. Mannréttindayfirlýsingunni var þannig ekki ætlað að hafa bindandi áhrif að þjóðarétti fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, heldur að verða þeim til leiðsagnar og leggja um leið á þau siðferðilega skuldbindingu um að löggjöf þeirra og réttarreglur væru í samræmi við yfirlýsinguna. Í yfirlýsingunni var heldur ekki kveðið á um nein sérstök úrræði handa þeim sem teldi aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa skert mannréttindi samkvæmt henni.“

Ég held áfram í næstu ræðu, virðulegi forseti, ef forseti vildi vinsamlega setja mig á mælendaskrá.