Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fara yfir þau neikvæðu áhrif sem breytingar á 12 mánaða tímafresti mun hafa í för með sér, sér í lagi fyrir börn á flótta. Ég hef komið inn á þetta fáránlega ákvæði þar sem það á að fara að láta börn þjást fyrir það sem Útlendingastofnun telur foreldra þeirra hafa gert af sér. Það á að refsa börnum fyrir gjörðir foreldra sinna sem gengur þvert gegn ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég var að vísa í bls. 17 í umsögn Rauða krossins um þetta frumvarp en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Athygli vekur að í frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá þeirri framkvæmd að láta tafir foreldra eða umsjónarmanna ekki bitna á rétti barna til efnislegrar meðferðar. Er hér raunar lagt til að börn missi rétt til efnismeðferðar ef foreldrar þess eða umsjónarmenn teljast vera valdir að töfum. Hingað til hafa börn verið talin eiga sjálfstæðan rétt til efnislegrar meðferðar eftir 12 mánaða dvöl á landinu, bæði óháð því hvenær lokaákvörðun var birt í máli þeirra og ástæðum fyrir lengd dvalar hér á landi. Umrædd breyting tekur ekki tillit til sérstakra þarfa barna og er ekki í samræmi við meginreglu barnaréttar um að við ákvarðanatöku skuli hafa bestu hagsmuni barna að leiðarljósi en regluna er m.a. að finna í 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem var lögfestur hér á landi þann 6. mars 2013 með lögum nr. 19/2013. Þá gengur umrædd breyting þvert á ákvæði 2. mgr. 2. gr. barnasáttmálans en þar segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima. Ákvæðið beinist einkum gegn því að börn séu sett í þá aðstöðu að vera látin líða fyrir athafnir foreldra sinna eða ættingja, sem þau eiga engan þátt í né bera ábyrgð á, en eru samt látin gjalda fyrir vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu sinnar. Þá er tilefni til að taka fram að þau rúmlega sjö ár sem Rauði krossinn sinnti talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa talsmenn félagsins ekki orðið þess áskynja að foreldrar hafi „þvingað fram efnislega málsmeðferð“ með því að viljandi tefja mál sín, líkt og fram kemur í frumvarpinu, og er umrædd staðhæfing því í engu samræmi við reynslu félagsins.“

Ráðuneytið er sem sagt að ljúga upp á foreldra barna á flótta að þau séu að misnota málsmeðferð stjórnvalda og séu viljandi að tefja málsmeðferðina sína og misnota það að þau eigi börn til að fá hér hæli. Reynsla talsmanns flóttamanna er að þetta standist enga skoðun eftir sjö ára reynslu í þessum málaflokki.

Þetta er eitt af þeim fjöldamörgu atriðum sem við viljum ræða við hæstv. mennta- og barnamálaráðherra sem hefur verið á harðahlaupum undan lýðræðislegri skyldu sinni til að ræða þetta mál og sýna ábyrgð gagnvart börnum á flótta. Það er greinilega ekki sama hvaða barn það er, hvaða hópur barna það er þegar kemur að því að vernda réttindi þeirra gagnvart hæstv. mennta- og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni. Hann gerði heldur betur út á það fyrir síðustu kosningar að hafa velsæld barna að leiðarljósi í öllum sínum störfum og held ég að hann hafi nú krækt í þó nokkuð mörg atkvæði fyrir það, en eins og sést á ráðherrabekknum er hann hvergi sjáanlegur, þrátt fyrir að við höfum endurtekið óskað eftir nærveru hans. Þrátt fyrir að við höfum endurtekið spurt hann um afstöðu sína hefur hann ekki fengist til að svara fyrir afstöðu sína gagnvart þessum fyrirætluðu mannréttindabrotum ríkisstjórnar hans á réttindum barna á flótta. Það eru mér mjög mikil og djúp vonbrigði að hæstv. ráðherra sjái ekki sóma sinn í að svara fyrir það hvernig honum í alvörunni finnst í lagi að samþykkja þetta. Styður hann þetta frumvarp? Styður hann það ákvæði frumvarpsins sem mun fjölga þeim tilfellum þar sem börn fæðast hér, alast upp í lengri tíma en er svo vísað út í óvissuna, hvort sem það er í Grikklandi eða annars staðar? Styður hann það að hér sé gengið í berhögg við fjöldamörg ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki bara það heldur líka barnalaga? Er það bara allt í lagi? Skiptir máli hverra manna þessi börn eru sem hæstv. barnamálaráðherra segist standa vörð um? Mér sýnist það á öllu, miðað við sífellda fjarvist ráðherrans í þessum mikilvæga málaflokki.