Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Bara í framhaldi af orðum hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem fór ágætlega yfir það hvers vegna það er eiginlega ómögulegt annað en að barnamálaráðherra mæti hér í salinn og geri grein fyrir afstöðu sinni til ákvæða sem ganga gegn réttindum barna, þá verð ég að spyrja. Við beindum fyrirspurn til ráðherrans í óundirbúnum fyrirspurnartíma fyrr í vikunni og hann vék sér undan því að svara. Hann var hér í salnum að greiða atkvæði um að halda þessari dagskrá dagsins í dag til streitu. Þá mætti hann í hús hér í morgun en hann var bara svo fljótur að hlaupa úr húsi að við náðum ekki að spyrja hann hvort hann ætlaði að vera við umræðuna. Við erum ítrekað búin að biðja forseta að koma boðum til ráðherra um að nærveru hans sé óskað og ég held að honum sé að verða það nokkuð ljóst (Forseti hringir.) að nærveru hans sé óskað. Mig langar að spyrja forseta: Hvað hefur frést af því hvort ráðherra ætli að mæta?