Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:42]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að við þurfum bara að fara að lýsa eftir þessum ráðherrum, að þeir mæti í vinnuna og svari fyrir málefnasvið sín hér í þinginu eins og þeim er gert að gera. Það er raunar með miklum ólíkindum að ráðherrar málaflokksins greiði atkvæði með því að þetta mál skuli vera til umræðu, fullmeðvitaðir um að nærveru þeirra hefur verið óskað í umræðunni, en hlaupi svo úr salnum um leið og búið er að greiða atkvæði um að umræðan um þetta mál skuli halda áfram án þess að taka nokkurn þátt í umræðunni. Svo ekki sé minna sagt þá kalla ég þetta heigulshátt.

Ég auglýsi enn og aftur eftir nærveru tveggja ráðherra sem hér hefur verið kallað eftir endurtekið, hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni og hæstv. mennta- og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni, (Forseti hringir.) að þeir komi hér og svari fyrir sín málefnasvið.