Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið áðan og mig langar að halda áfram að ræða örlítið um þær stöllur Mary og Haniye, stúlkur á flótta sem til stóð að brottvísa hér undir lok sumars 2017 en almenningur tók í taumana, eins og svo oft áður, eins og svo oft síðar, eins og svo allt of oft hefur reynst vera nauðsynlegt. Á þessum tímapunkti var reipið á milli stjórnarflokkanna farið að trosna svolítið. Það var enda ekki langt í að stjórnin myndi liðast í sundur og t.d. voru boðuð mótmæli hér stuttu fyrir þingsetningu, það voru boðuð mótmæli á Austurvelli 9. september, sem er þá væntanlega laugardagurinn fyrir þingsetningu sem var 12. september. Í aðdraganda þeirra mótmæla var rætt við einn stjórnarþingmana, sem er reyndar enn þá hér á þingi, og mig langar að vitna í frétt Vísis þar sem þetta viðtal er, með leyfi forseta:

„Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, vill að þær Haniye, 11 ára gömul stúlka sem er á flótta, og Mary, 8 ára gömul stúlka sem er einnig á flótta, fái að vera áfram á Íslandi en vísa á þeim báðum úr landi sem og foreldrum þeirra. Þau hafa sótt um hæli hér á landi. Hanna Katrín vill að mannúð ráði frekar för en ítrustu laga-og reglugerðartúlkanir þegar kemur að meðferð mála hælisleitenda og flóttamanna.“

Svo kemur tilvitnun í þingmanninn, með leyfi forseta:

„„Ég er þeirrar skoðunar að sein meðferð mála varpi enn ríkari ábyrgð á okkur varðandi það að láta mannúð ráða för frekar en ítrustu laga- og reglugerðartúlkanir. Hin nígerísku Sunday Iserien og Joy Lucky og dóttir þeirra Mary sem og afgönsku feðginin Hanyie og Abrahim Maleki eiga það t.d. skilið af okkar hálfu.

Ég styð heilshugar að þessar tvær fjölskyldur fái að halda áfram að byggja upp nýtt líf hér á landi. Að baki þeim stuðningi mínum liggja mannúðarástæður. Stundum er það einfaldlega nóg,“ segir Hanna Katrín á Facebook-síðu sinni.“

Þar lýkur þessari tilvitnun og hér verð ég náttúrlega að leiðrétta það að ég hafi kallað þetta viðtal þegar þetta var yfirlýsing hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson á Facebook-síðu hennar.

En svo við flytjum þetta yfir til dagsins í dag þá var þarna stjórnarþingmaður í stjórn sem átti dálítið erfitt, stjórnarþingmaður sem hafði þurft að láta ýmislegt yfir sig ganga af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra mánuðina á undan, stjórnarþingmaður sem af þessu að dæma var kannski að fá sig fullsadda á því að stjórnin sýndi ekki þá stefnu í verki sem þingmanninum fannst stofnað til stjórnarinnar fyrir. Hvað gerir þessi hv. stjórnarþingmaður? Hún stígur fram og lýsir afstöðu sem gengur í berhögg við það sem hæstv. dómsmálaráðherra hafði sagt á þessum tíma og setur þar með þrýsting á breytingar. Hvað sjáum við í dag varðandi það frumvarp sem við ræðum hér? Við heyrum frá hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum Vinstri grænna að þetta mál sé afar umdeilt og það þurfi að gera einhverjar breytingar á því en aldrei jafn afgerandi (Forseti hringir.) og haustið 2017 af hálfu Hönnu Katrínar Friðriksson.