Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að fara yfir greinargerð frumvarps um lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu og held áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„Upphaf Evrópuráðsins.

Á fyrstu árunum eftir stríð var mjög hvatt til þess í ríkjum Vestur-Evrópu að leitað yrði leiða til að auka samstöðu þeirra og þá einkum til að koma í veg fyrir að styrjöld gæti brotist út milli þeirra á ný. Síðla árs 1947 mynduðu ýmis samtök í þessum ríkjum alþjóðanefnd um evrópska samstöðu sem boðaði til ráðstefnu Evrópuþjóða í Haag í maí 1948. Á ráðstefnunni var meðal annars samþykkt ályktun um að stofna ætti ráðgjafarþing Evrópuríkja og mannréttindadómstól þeirra. Í anda þessarar ályktunar ákváðu aðildarríki svonefnds Brusselbandalags, sem stofnað var í mars 1948 af Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi og Lúxemborg, að skipa nefnd til að vinna frekar að þessum markmiðum. Í janúar 1949 náðu þessi ríki samkomulagi um að leggja drög að stofnun Evrópuráðsins og buðu Danmörku, Írlandi, Ítalíu, Noregi og Svíþjóð að taka þátt í frekari undirbúningi. Í sameiningu stóðu þessi ríki síðan að stofnskrá Evrópuráðsins sem var undirrituð 5. maí 1949. Í 1. og 3. gr. stofnskrárinnar kemur fram að markmið Evrópuráðsins sé að stuðla að einingu aðildarríkja þess um að vernda og koma í framkvæmd þeim hugsjónum og meginreglum sem séu sameiginleg arfleifð þeirra, meðal annars með því að efla mannréttindi og mannfrelsi sem aðildarríki að Evrópuráðinu skuldbinda sig til að tryggja öllum innan lögsögu þeirra. Ísland var þriðja ríkið sem gekk í Evrópuráðið til viðbótar við stofnríki þess, en það gerðist 7. mars 1950.

Með stofnskrá Evrópuráðsins urðu til tvenns konar stofnanir þess; ráðgjafarþing og nefnd utanríkisráðherra aðildarríkjanna, svokölluð ráðherranefnd, en í stofnskránni var kveðið nánar á um skipan og hlutverk þessara stofnana. Þegar á fyrsta fundi ráðgjafarþingsins í ágúst 1949 var samþykkt að undirbúa gerð samnings milli aðildarríkja Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, en þingið fól laganefnd sinni að starfa frekar að þessu og beindi meðal annars til hennar að hafa í þeim efnum hliðsjón af mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Laganefndin lauk störfum á skömmum tíma og samþykkti ráðgjafarþingið í september 1949 að mæla með tillögu hennar um gerð samnings, þar sem yrði kveðið á um verndun tíu grundvallarréttinda og stofnun mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu til að tryggja að þessi réttindi yrðu virt. Í framhaldi af þessu komu tillögurnar til kasta ráðherranefndar Evrópuráðsins sem fól sérfræðinganefnd að semja uppkast að alþjóðasamningi á grundvelli þeirra. Innan sérfræðinganefndarinnar náðist ekki full samstaða og voru því nokkur atriði enn óútkljáð þegar hún skilaði ráðherranefndinni uppkasti sínu vorið 1950. Embættismannanefnd var falið að ná samkomulagi um þessi atriði, sem tókst að mestu, en endanlega voru öll meginatriði samningsins útkljáð á fundi ráðherranefndarinnar í ágúst 1950. Samningurinn um verndun mannréttinda og mannfrelsis var síðan undirritaður á fundi ráðherranefndarinnar 4. nóvember 1950, en samkvæmt 66. gr. hans átti hann að öðlast gildi þegar tíu aðildarríki Evrópuráðsins hefðu afhent aðalritara þess skjöl um fullgildingu sína á samningnum. Forseti Íslands undirritaði 19. júní 1953 fullgildingarskjal íslenska ríkisins á samningnum, sbr. auglýsingu nr. 11/1954. Samningurinn tók síðan gildi 3. september 1953 þegar fullgildingarskjöl tilskilins fjölda aðildarríkja höfðu verið afhent Evrópuráðinu.“

Nú var ég í Evrópuráðinu í síðustu viku. Það er alveg mögnuð stofnun, verð ég að segja, þvílík dagskrá þessa viku sem Evrópuráðið er í gangi. Það er styst frá því að segja í rauninni að andi þeirrar mannréttindaverndar sem kemur hér fram í stofnun er tvímælalaust enn ríkur þar, en það eru nokkur ríki, og sérstaklega ríki sem tilheyra ákveðinni hugmyndafræði, sem eru að reyna að grafa undan mannréttindum, smám saman hér og þar, sérstaklega meðal þeirra sem eru að sækja um alþjóðlega vernd, sérstaklega meðal útlendinga. (Forseti hringir.) Við viljum ekki vera hluti af þeim þjóðum. Við viljum vera hluti af þeim þjóðum sem virða mannréttindi.