Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég lét staðar numið hér áðan þar sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson steig fram og lýsti því yfir að hún teldi mannúð mæla með því að Mary og Haniye fengju að vera á Íslandi. Ég held að hún hafi þannig hjálpað hluta stjórnarliða að hugsa það mál öðruvísi, sem var mjög gott og gott fóður fyrir þau inn í vikuna þar á eftir sem var einhver mesta umrótsvika stjórnmála síðustu — það er kannski erfitt að segja því að þær eru margar dramatískar vikurnar sem við höfum upplifað. En þetta er vikan þar sem á mánudeginum féll úrskurður hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála um að dómsmálaráðuneytinu bæri að afhenda Ríkisútvarpinu öll gögn er vörðuðu málsmeðferð um uppreist æru. Það varð til þess að Bjarni Benediktsson upplýsti formenn hinna stjórnarflokkanna um að nafn föður hans myndi dúkka upp á einu af meðmælabréfunum með umsókn um uppreist æru. Síðan var þingsetning á þriðjudegi, umræður um stefnuræðu forsætisráðherra og meira var eiginlega ekkert gert vegna þess að það var síðan á fimmtudeginum eða föstudeginum sem stjórnin sprakk og náðist ekki einu sinni að mæla fyrir fjárlagafrumvarpinu. Það var sett á dagskrá vikuna á eftir.

Þegar þessi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar liðaðist í sundur þá skapaðist, eins og ég nefndi áðan, áhugavert tækifæri fram að kosningum vegna þess að það var ákveðin stemning hér innan húss um að það þyrfti að ljúka þessu máli Mary og Haniye sómasamlega. Í kringum þingsetninguna hafði verið lagt fram frumvarp um að veita þeim ríkisborgararétt og að baki því frumvarpi stóðu allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna, ef ég man rétt. En sú leið sem síðan varð endanlega ofan á held ég að hafi verið mun farsælli fyrir þessar fjölskyldur. Hún fólst í því að fulltrúar allra flokka — hvort það var valið í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd eða hvort það voru formenn flokkanna sem settust niður eða bara sérstakir sérfræðingar í þessum málum man ég ekki alveg, en alla vega settust fulltrúar allra flokka niður og reyndu að ná utan um einhvers konar frumvarpsdrög sem gætu leyst þann vanda sem hafði verið í fjölmiðlum vikurnar á undan og þá ekki bara gagnvart þessum tveimur stúlkum heldur gagnvart fjölda barna í svipaðri stöðu sem höfðu verið hér mánuðum saman, allt of lengi, án þess að fá niðurstöðu máls síns eða án þess að fá að vera. Þarna voru börn búin að vera eitt, eitt og hálft ár, það var einhvern veginn viðmiðið. Þetta var mjög áhugaverð tilraun þar sem var reynt að koma til móts við öll sjónarmið við borðið og kemur kannski ekkert á óvart að það hafi verið sjónarmið Sjálfstæðisflokks sem var mesta áskorunin að ná utan enda þar innan borðs fráfarandi — eða hún var endurreist sem dómsmálaráðherra, sem vildi upphaflega ekkert fyrir Mary og Haniye gera þegar málið kom fram í ágúst. En ég segi kannski aðeins meira frá tilurð þessa frumvarps hér næst.