Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held hérna áfram að lesa úr greinargerð frumvarps um lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu:

„Breytingar á mannréttindasáttmálanum. Í samningnum um verndun mannréttinda og mannfrelsis eru ekki sérstakar reglur um hvernig breytingar verði gerðar á ákvæðum hans eða aukið verði við hann, heldur gilda um þetta almenn fyrirmæli í stofnskrá Evrópuráðsins, einkum í 15. og 20. gr. hennar. Samkvæmt stofnskránni verður grunnur lagður að breytingum af þessum toga með ályktun ráðherranefndar Evrópuráðsins, ýmist að frumkvæði hennar eða þings ráðsins. Breytingar taka ekki gildi nema að fenginni fullgildingu tiltekins fjölda aðildarríkja að mannréttindasáttmálanum, en nauðsynlegur fjöldi ríkja er ákveðinn hverju sinni í samningi um breytingarnar. Breytingar á sáttmálanum, sem leggja auknar skyldur á aðildarríkin, verða ekki bindandi fyrir þau nema þau fullgildi þær fyrir sitt leyti. Með þessum hætti hafa alls verið gerðir átta samningsviðaukar við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem hafa öðlast gildi.

Þrír af þessum samningsviðaukum hafa leitt til breytinga á upphaflegum texta samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, en þetta eru samningsviðaukar nr. 3 frá 6. maí 1963, nr. 5 frá 20. janúar 1966 og nr. 8 frá 19. mars 1985. Ísland fullgilti tvo fyrstnefndu samningsviðaukana 16. nóvember 1967, en samningsviðauka nr. 8 22. maí 1987. Þessir samningsviðaukar öðluðust ekki gildi fyrr en við fullgildingu þeirra af hálfu allra aðildarríkja að mannréttindasáttmálanum. Það var fyrst á árinu 1970 sem viðauki nr. 3 fékk gildi, viðauki nr. 5 árið 1971 og viðauki nr. 8 árið 1990.

Fimm samningsviðaukar hafa leitt af sér viðbætur við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Í einum þeirra, samningsviðauka nr. 2 frá 6. maí 1963, er kveðið á um frekari viðfangsefni Mannréttindadómstóls Evrópu en voru ráðgerð í upphaflega samningnum, en með þessum viðauka er mælt fyrir um vald dómstólsins til að láta uppi ráðgefandi álit um önnur atriði sáttmálans en skýringu á einstökum ákvæðum hans um vernd mannréttinda. Þessi samningsviðauki var fullgiltur af Íslandi 16. nóvember 1967, en hann öðlaðist gildi 1970, þegar öll aðildarríki að sáttmálanum höfðu fullgilt hann. Í hinum viðaukunum fjórum eru ákvæði um ýmis mannréttindi sem ekki var mælt fyrir um í samningnum um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Þetta eru nánar tiltekið samningsviðaukar nr. 1 frá 20. mars 1952, nr. 4 frá 16. september 1963, nr. 6 frá 28. apríl 1983 og nr. 7 frá 22. nóvember 1984. Fyrsti samningsviðaukinn var fullgiltur af íslenska ríkinu um leið og samningurinn um verndun mannréttinda og mannfrelsis, eða 19. júní 1953. Samningsviðauki nr. 4 var fullgiltur 16. nóvember 1967, en tveir síðastnefndu viðaukarnir 22. maí 1987. Til þess að þessir samningsviðaukar fengju gildi var áskilið að ákveðinn fjöldi aðildarríkja, á bilinu frá fimm til tíu í hverju tilviki, hefðu fullgilt þá. Samningsviðauki nr. 1 öðlaðist gildi á árinu 1954, nr. 4 á árinu 1968, nr. 6 á árinu 1985 og nr. 7 á árinu 1988.

Þess skal getið að þann 6. nóvember 1990 var undirritaður samningsviðauki nr. 9 við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis, en með honum er ætlunin að breyta ákvæðum 31., 44., 45. og 48. gr. samningsins. Þessi viðauki tekur ekki gildi fyrr en tíu aðildarríki hafa fullgilt hann, en það hefur ekki gerst enn sem komið er. Ísland er meðal þeirra ríkja sem ekki hafa fullgilt viðaukann.

Um þessar mundir hafa 27 aðildarríki að Evrópuráðinu fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu, en auk Íslands eru þetta eftirtalin ríki: Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, San Marínó, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkóslóvakía, Tyrkland, Ungverjaland og Þýskaland.“

Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig á mælendaskrá aftur til að ég geti haldið áfram lestrinum.