Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef verið að fjalla um hvernig breytingin á 12 mánaða reglunni, um að mál skuli tekið til efnismeðferðar hafi flóttamaður verið hér lengur en 12 mánuði án þess að fá úrskurð um hvort hann fái efnismeðferð, muni bitna á réttindum barna og muni brjóta á réttindum barna að því marki að þeim verður refsað fyrir ætlaðar misgjörðir foreldra sinna. Í þessu samhengi vil ég vísa í umsögnina frá Barnaheillum sem fjallaði einmitt um þetta atriði og kemur fram á bls. 3, með leyfi forseta:

„Óljóst er að mati Barnaheilla hvort tímafrestir varðandi það hvort taka eigi mál til efnismeðferðar að loknum biðtíma ef niðurstaða á stjórnsýslustigi liggur ekki fyrir innan 12 mánaða eigi við um börn þar sem nú er kveðið á um það í reglugerð um útlendinga að ef ákvörðun liggur ekki fyrir innan 10 mánaða frá því að umsókn var gerð skuli taka mál barns til efnismeðferðar. Mikilvægt er að það verði skýrt í greinargerð með frumvarpinu hvort með 8. grein frumvarpsins sé ætlunin að þrengja rétt barna til efnismeðferðar ef dráttur verður á afgreiðslu umsóknar af hálfu útlendingayfirvalda.“

Þessu er ekkert hægt að breyta eða skýra það nú þegar frumvarpið er komið fram og komið í 2. umr. Það er ekki hægt að breyta greinargerð með frumvarpi. Það yrði þá að kalla það aftur, sem væri mér raunar alls ekki á móti skapi. En ég held áfram, með leyfi forseta:

„Hvað varðar þá breytingu á tímafresti að miða við að efnismeðferð skuli veitt ef lokaniðurstaða á stjórnsýslustigi liggur ekki fyrir innan 12 mánaða vilja Barnaheill taka undir sjónarmið og umfjöllun Rauða krossins um ákvæðið og tillögu þeirra um að halda 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. gildandi laga óbreyttum en breyta 2. mgr. 74. gr. laganna til samræmis við hann, þannig að miðað verði við heildardvalartíma sem barn er hér á landi og ef hann dregst fram yfir 10 mánuði frá því umsókn var lögð fram skuli mál þess verða tekið til efnismeðferðar.

Mikilvægt er að mati Barnaheilla að það sé skýrt að tafir á meðferð máls sem rekja megi til aðstandenda barns skuli aldrei túlka barni í óhag við málsmeðferð umsóknar þess, það skyldi aldrei koma niðri á barni ef aðstandandi þess er valdur að töfum því barn að getur ekki og á ekki að bera ábyrgð á þriðja aðila.

Það er enn fremur mikilvægt að mati Barnaheilla að árétta að öll mál sem varða börn skal alltaf meta með hagsmuni barns að leiðarljósi og taka ákvörðun á grundvelli þess sem talið er barni fyrir bestu að loknu mati. Tímafrestir mega ekki leiða til þess að mat á hagsmunum barns verði illa unnið.“

Hér get ég tekið heils hugar undir með Barnaheillum, sem voru ekki ein um þessar athugasemdir og hef ég nú þegar farið yfir umsögn Rauða krossins þegar kemur að þessu atriði. En ég tel mikilvægt að árétta að þetta atriði, að láta ætluð verk foreldra bitna á börnum, er brot á réttindum barna og það er óforsvaranlegt að innleiða það í íslenskan rétt. Við erum þar með að ganga í berhögg við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna og ég tel að það sé ekki hægt að réttlæta það.

Sömuleiðis held ég að sé mikilvægt að fjalla aðeins um 11. gr. laganna en þar eru lagðar til breytingar sem fela í sér nánari útfærslu á útilokunarástæðu frá réttarstöðu ríkisfangslausra samkvæmt b-lið 1. mgr. 41. gr. útlendingalaga. Í athugasemdum við 11. gr. segir í frumvarpinu að breytingin sé lögð til í því skyni að breyta framkvæmd til samræmis við leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og er vísað til athugasemda stofnunarinnar um túlkun á útilokunarástæðu 1. gr. E flóttamannasamningsins. Tilvísaðar athugasemdir voru gefnar út í mars árið 2009. Fram kemur í frumvarpinu að ákvæðið sé samhljóða ákvæði 2. töluliðar 2. mgr. 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga, en mig langar að fara betur yfir það síðar í kvöld (Forseti hringir.) hvernig réttarstaða ríkisfangslausra einstaklinga mun snarversna við samþykkt þessa frumvarps.