Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hvar var ég staddur? Jú, við vorum í kringum borð, fólk frá alls konar stjórnmálaöflum, að finna þessa einföldu leið til að ná utan um Mary og Haniye án þess þó að vera í einhverri sérstakri lagasetningu bara fyrir þær, heldur búa til einhverjar almennar reglur, þannig að við lækkuðum viðmið um þann málsmeðferðartíma sem má líða þangað til stjórnvöld verða að taka mál til efnislegrar meðferðar, lækkuðum þau viðmið um þrjá mánuði.

En í frumvarpinu var líka sagt að umsókn — þetta var rammað inn þannig að það þyrfti að vera um barn að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd þyrfti að hafa borist fyrst íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laganna þannig að þessir frestir sem urðu 9 mánuðir og 15 mánuðir giltu bara um börn sem voru á landinu þann dag sem Alþingi samþykkti þessi lög, sem var 27. september 2017. Mér hefði ekki þótt neitt að því að gera þetta að einhverri varanlegri lagagrein en þarna var bara gerð þessi málamiðlun til að fá alla stjórnmálaflokka á þingi að borðinu og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn sem var kannski tregastur í taumi, en auk þeirra tveggja stúlkna sem urðu kannski kveikjan að þessari vinnu þá voru tugir barna sem nutu góðs af þessu.

Þarna náði þingið í miðri óreiðu stjórnarslita og þingrofs og boðs um kosningar að gera góðan hlut, að gera eitthvað sem gagnaðist tugum barna og fjölskyldum þeirra. En við vorum ekki öll saman í því. Þverpólitíska sáttin, sem er einmitt alltaf vísað í þegar talað er um uppruna núgildandi laga um útlendinga og sem var lögð mikil vinna í að ná þarna haustið 2017 til að allir flokkar gætu staðið að þessu máli, náðist ekki, þannig að frumvarpið var lagt fram af formönnum eða fulltrúum sex flokka. Það var sem sagt fólk úr Vinstri grænum, Pírötum, Framsókn, Viðreisn, Bjartri framtíð og Samfylkingu sem lagði þetta mál fram sameiginlega í þeim skilningi að það væri samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn að þetta mál myndi fá nokkuð greiða leið í gegnum þingið. Að sumu leyti má það til sanns vegar færa. Málið tók ekki langan tíma hér, því var útbýtt af þessum formönnum eða formannsígildum 26. september og var síðan orðið að lögum 27., en það kom dálítið babb í bátinn. Við sluppum ekki með það að Sjálfstæðisflokkurinn myndi umbera það að þetta mál færi í gegn heldur snerist hann á síðustu stundu bara dálítið hart gegn málinu. Um það hef ég fjallað nokkuð ítarlega því að mér finnst þetta vera dálítið gleymdur blettur á þessu þingi 2017 en ég fer kannski út í smáatriðin varðandi það hér á eftir.