Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:48]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég er hér að leita að umsögn sem ég hreinlega finn ekki svo að ég byrja kannski bara á því að einbeita mér að umsögn presta innflytjenda og flóttafólks um frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga og þeirra athugasemdum. Þau lýsa því yfir að þau styðji eindregið framkomna umsögn Rauða krossins á Íslandi, sem ég skil vel, enda mjög ítarleg og vönduð umsögn sem ég hef verið að vitna hér ríkulega til. Í umsögn presta innflytjenda og flóttafólks segir einnig, með leyfi forseta:

„…[við] þekkjum málaflokkinn vel þar sem starf okkar felst að stórum hluta í þjónustu við þann hóp sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Ein af meginskyldum okkar sem prestar innflytjenda er að vera málsvari fyrir þann hóp sem til okkar leitar.

Í þessari umsögn beinum við athyglinni að 6. gr. frumvarpsins.

Undirrituð telja að breytingartillaga 6. gr., sem felur það í sér að réttur umsækjenda um alþjóðlega vernd verði felldur niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli hans á stjómsýslustigi, muni hafa afar neikvæð áhrif á þá einstaklinga sem falla undir ákvæðið. Ef breytingin nær fram að ganga þá þýðir það að grundvallarþjónusta er varðar heilsu, öryggi og velferð verður tekin frá viðkomandi einstaklingum sem þurfa þá að leita skjóls á götunni, hafi þau ekki yfirgefið landið sjálfviljug. Að okkar mati hlýtur slík framkvæmd af hálfu ríkisins að stangast á við grundvallarstefnu íslensku þjóðarinnar sem byggir á virðingu fyrir mannréttindum og skyldu okkar til að standa vörð um velferð allra sem dvelja á landinu.

Þær manneskjur sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd hafa yfirleitt lítið eða ekkert tengslanet hér á landi. Þau sem njóta ekki lengur stuðnings stjórnvalda eru því líklegri til þess að finna sig í óæskilegum aðstæðum til þess eins að sjá fyrir sér. Það er staðreynd að fólk á flótta er viðkvæmur hópur sem er berskjaldaðri en aðrir fyrir því að verða fórnarlömb mansals og ofbeldis. Við teljum afar mikilvægt að hlúa áfram að þessum hópi til þess að hann komist ekki í slíkar örvæntingafullar aðstæður að það skapi ný vandamál sem hefði afar neikvæð áhrif á þessa einstaklinga og samfélagið allt; sem myndi fylgja ýmis beinn og óbeinn kostnaður við að bregðast við.“

Virðulegur forseti. Enn fremur stendur í umsögn presta innflytjenda og flóttafólks, með leyfi forseta:

„Það er fyrirsjáanlegt að niðurfelling grunnþjónustu þvingar fólk í erfiða stöðu sem aftur skapar álag á önnur félagsleg kerfi eins og til dæmis sveitarfélög og ýmis hjálparsamtök, þangað sem fólk leitar í neyð. Það er reynsla okkar í samskiptum við þann hóp fólks sem hingað er kominn í leit að alþjóðlegri vernd að þetta fólk á sér þá ósk heitasta að fá tækifæri til að framfleyta sér og að verða virkir þegnar í samfélaginu.

Margvíslegar ástæður geta valdið því að fólk yfirgefi ekki landið sjálfviljugt eftir að endanleg synjun liggur fyrir í máli þeirra, sem dæmi eru einstaklingar sem hafa fengið alþjóðlega vernd á Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi og er synjað um vernd hér á þeim forsendum, en telja sig ekki örugg í þeim ríkjum.

Við viljum einnig ítreka afstöðu okkar, sem fram kom í fyrri umsögn um þetta frumvarp, að í þeim tilfellum þar sem fólk hefur fengið alþjóðlega vernd í ofangreindum löndum er um að ræða afar takmarkaða vernd. Það er staðreynd að í þessum ríkjum hefur fólk á flótta litla sem enga möguleika á mannsæmandi lífi, þar sem það getur sótt vinnu og séð fyrir sér, hefur aðgang að heilsugæslu sem og öðrum atriðum sem kveðið er á um í mannréttindaákvæðum, og getur því að okkar mati ekki talist „vernd“ í því landi heldur er það fólk raunverulega enn á flótta, þótt að það sé „tæknilega“ með landvistarleyfi.

Við hvetjum stjórnvöld til að rjúfa ekki ábyrgð sína á velferð fólks sem hefur fengið endanlega synjun meðan þau dvelja enn hér á landi.

Afleiðingarnar eru annars ófyrirséðar, en um leið dýrkeyptar fyrir fólk sem fór ekki sjálfviljugt frá sínu heimalandi, heldur var að flýja óþolandi og óbærilegar aðstæður. Okkur þykir ljóst að verði þessi 6. gr. samþykkt óbreytt þá muni íslenska ríkið gerast sekt um að brjóta gegn þeim mannréttindasáttmálum sem stjórnvöld hafa fullgilt og heitið að virða.“

Og prestar innflytjenda og flóttafólks biðja guð að blessa Alþingi Íslendinga og mikilvæg störf þess. Mér finnst það fallega gert af þeim, ég veit að þau meina vel með því. Ég vona auðvitað að stjórnarliðar taki það til sín og opni eyrun fyrir mannkærleika og þeirri trú sem margir þeirra gangast eflaust við að styðja. En hana er alla vega ekki að finna í þessu frumvarpi.