Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt um umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands vegna þess að þar er á ferðinni sjálfstæð stofnun sem hefur m.a. það hlutverk að gera fræðilegar rannsóknir á sviði mannréttinda og því ættu umsagnir þeirrar stofnunar að vega ansi þungt. Þess ber að geta að við óskuðum eftir því að fá sjálfstætt mat eða úttekt Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands á því hvort þetta frumvarp stæðist stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, en því var hafnað af hálfu meiri hlutans af ástæðum sem enn hafa ekki verið gerðar opinberar, því að ekki sá ráðuneyti dómsmála sér heldur fært að kanna hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá. Stjórnarliðum finnst þar af leiðandi greinilega bara allt í lagi að verulegur vafi sé uppi um hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá eða ekki. Hlýtur það að teljast vítavert gáleysi hið minnsta gagnvart ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands kemur fram, með leyfi forseta:

„MHÍ gerir tvenns konar almennar athugasemdir við framsetningu frumvarpsins auk þess sem gerðar eru athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi kemur fram í kafla 4 í almennum athugasemdum með frumvarpinu: „Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá.“ Hvorki virðist vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) í athugasemdunum. Verður að telja þetta afar óheppilegt. Efni frumvarpsins varðar með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Til dæmis: brottfall þjónustu (6. gr.) varðar 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár og 65. gr. stjórnarskrár.“ — þ.e. rétt á aðstoð vegna örorku eða örbirgðar og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar — „[og] breyttar reglur um endursendingar varða 68. gr. stjórnarskrár og 3. gr. MSE“ — þ.e. bann við pyntingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þetta eru mín innskot, virðulegi forseti. Ég er að útskýra hvað þessar greinar sem hér er vísað í standa fyrir.

Hér er einmitt vísað í ítarlega dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins en dómaframkvæmdin hefur leitt í ljós að það hvílir mjög þung skylda á aðildarríkjunum mannréttindasáttmála Evrópu að ganga úr skugga um að ekki sé verið að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd á svæði eða til landa þar sem hætta er á að þeir kunni að sæta pyntingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þess ber að geta í því samhengi að það er á þessum grundvelli sem dómstólar, t.d. í Þýskalandi, eru hættir að senda flóttafólk til Grikklands þótt viðkomandi flóttafólk hafi fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi. Aðstæður flóttafólks þar eru taldar það skelfilegar að það jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð. Þannig horfir þetta við í Þýskalandi en hér finnst meira að segja forsætisráðherra Íslands ekkert athugavert við að senda flóttafólk á götuna í Grikklandi.

Svo ég haldi áfram að lesa upp úr þessari mikilvægu umsögn, virðulegi forseti, þá er hér talað um að sérákvæði um börn sem finna má í frumvarpinu varði 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar einmitt um að börn eigi rétt á vernd í lögum sem velferð þeirra krefst. Þetta er eitthvað sem við höfum verið að fjalla mjög ítarlega um hérna, að frumvarpið eins og það liggur fyrir muni að öllum líkindum brjóta á réttindum flóttabarna á margvíslegan hátt. En eftir sem áður höfum við ekki fengið hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hingað til að svara fyrir afstöðu sína gagnvart þeim ákvæðum er snúa beint að réttindum barna á flótta. Er mig nú farið að gruna að það sé vegna þess að hann sé ekki tilbúinn að leggja á sig nokkra pólitíska vinnu til að standa vörð um réttindi flóttabarna miðað við það hversu lengi við erum búin að kalla eftir hans þátttöku hér og af hversu miklum ásetningi hann hefur hunsað þær óskir að hann komi hér og svari fyrir hvernig hann hyggist vernda réttindi þessara barna.

Ég sé að ég kemst ekki mikið lengra í þessari mikilvægu umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands að þessu sinni, virðulegi forseti. Í henni er að finna mjög margar mikilvægar ábendingar til stjórnvalda um þá margvíslegu ágalla sem eru á þessu frumvarpi. Af þeim sökum óska ég eftir að verða sett aftur á mælendaskrá til að geta farið betur yfir efni hennar hér á eftir.