Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hef verið að fjalla hérna um umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands sem er mjög mikilvægt gagn í þessu máli. Ég komst ekki lengra en í 1. mgr. þeirrar umsagnar í fyrri ræðu minni vegna þess að mér fannst svo mikilvægt að fara í gegnum öll þau mögulegu stjórnarskrárbrot sem Mannréttindastofnun vísar til að gætu verið að eiga sér stað með samþykkt þessa frumvarps. Ég var komin að ítarlegri dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins varðandi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ætli ég hafi ekki líka verið búin að minnast á sérákvæði um börn sem varða 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og var komin hingað, með leyfi forseta, að „framkvæmd ákvarðana varða 71. stjskr. og 8. gr. MSE og eftir atvikum 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE …“, sem er, eins og ég kom inn á, bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Sömuleiðis kunna ýmis útfærsluatriði á málsmeðferð að varða 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hvað varðar rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

Þetta er eitt af stóru vandamálunum við þetta frumvarp, virðulegi forseti. Þð er verið að gera flóttafólki, sem á nú þegar mjög erfitt með að leita réttar síns í íslensku kerfi — þar sem kæra á lokaákvörðun stjórnvaldsins, kærunefnd útlendingamála, frestar almennt ekki réttaráhrifum, sem þýðir að fólk hefur almennt ekki tækifæri til að bera meðferð stjórnvalda undir dómstóla eins og Íslendingar eiga alla jafnan rétt á að gera — enn erfiðara fyrir með því að stytta kærufresti og loka enn frekar á að flóttafólk geti leitað réttar síns. Þess vegna er þessi ábending frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands svo mikilvæg. Hún sýnir fram á að það á að skerða enn frekar réttindi fólks til aðgengis að dómstólum, það á að skerða réttindi fólks til réttlátrar málsmeðferðar enn frekar og rétt þeirra til raunhæfs úrræðis. Það þýðir að þú hafir einhvern stað þar sem þú getur leitað réttar þíns og það sé raunhæft úrræði að því marki til að það sé yfir höfuð mögulegt praktískt séð, að það sé yfir höfuð framkvæmanlegt í raunveruleikanum, að það séu ekki bara einhver orð á pappír að þú megir t.d. áfrýja ákvörðunum Útlendingastofnunar, vegna þess að tímafresturinn er svo ótrúlega stuttur að það er ekki nægjanlegur tími til að ná í þau gögn sem þú þarft fyrir áfrýjunina. Og sömuleiðis er engan veginn nægur tími til þess einu sinni að þýða ákvörðunina sem þér er birt á íslensku og þú þarft að koma yfir á þitt eigið tungumál, oft 10–20 blaðsíðna langar ákvarðanir. Þetta verður á einhverjum tímapunkti ekki lengur raunhæf áfrýjunarleið þegar tímafrestirnir eru stuttir og þegar rannsóknarskyldu stjórnvalds er jafn illa sinnt og málsmeðferð Útlendingastofnunar í þessum málaflokki ber með sér. Þess vegna er einmitt þetta, með rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, ótrúlega mikilvæg ábending hjá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Hennar niðurstaða er sú að það sé óhjákvæmilegt að löggjafinn taki skýra afstöðu að undangengnu efnislegu mati til þess hvort skilyrðum stjórnarskrárákvæða sé fullnægt.

Það er einmitt hvergi gert í þessu frumvarpi, virðulegi forseti. Það er það sem málið snýst um. Löggjafinn hefur ekki tekið neina skýra afstöðu til þess hvort skilyrðum stjórnarskrárákvæða sé fullnægt. Þegar við Píratar förum fram á að það sé gert erum við hunsuð, það er bara látið eins og við höfum ekki sagt neitt. Ég verð að segja að mín upplifun undanfarna viku er eins og að vera komin aftur í grunnskóla þar sem einhvers konar fýlustjórnun er í gangi ef fólk er búið að ákveða að það ætlar ekki tala við þig. Það er auðvitað ótrúlega súrrealískt að þannig virki löggjafarsamkunda Íslendinga árið 2023. En þetta er minn vitnisburður, þannig virkar þetta.