Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Nú er svo stutta milli ræðna hjá mér að ég náði ekki einu sinni missa þráðinn. Það sem ég var að fara yfir var þetta nýja ákvæði í b-lið 8. gr. frumvarpsins sem veitir Útlendingastofnun heimild til þess að vísa fólki þangað sem stofnuninni dettur í hug. Ég fór örstutt yfir það hvað stofnuninni gengur til. Jú, hún er að reyna að bæta upp fyrir það ástand að þegar flóttafólk kemur frá Venesúela þá eru engin aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar sem við getum vísað vandanum yfir á vegna þess að þetta fólk kemur að vestan á meðan fólkið sem kemur að austan, landfræðilega, fer í gegnum Evrópu fyrst þannig að það er hægt að varpa ábyrgðinni eitthvert annað. Stofnuninni dettur þetta í hug og nær því í gegnum ráðuneytið.

Vandamálið við þetta er að Dyflinnarreglugerðin er í fyrsta lagi samkomulag á milli ríkjanna. Hún var upphaflega samningur, í dag er hún reglugerð sem ríki hafa gengist undir. Það er engin slík reglugerð, ekkert slíkt samkomulag sem liggur að baki þessu ákvæði. Þarna er verið að leggja til að Útlendingastofnun verði heimilt að synja fólki um áheyrn og að vísa því þangað sem Útlendingastofnun finnst sanngjarnt og eðlilegt að umsækjandi dveljist. Segjum sem svo að það sé Chile af því að viðkomandi á góða frænku sem býr í Chile. Ókei. Útlendingastofnun segir bara: Heyrðu, þú getur farið til Chile af því að við lásum útlendingalögin í Chile og þar kemur fram að hægt sé að sækja um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla og okkur finnst sanngjarnt og eðlilegt að þú dveljist þar af því að þú þekkir fólk þar og talar tungumálið og svona. Okkur finnst þetta frábær hugmynd. Og þau taka þá ákvörðun. Með þessari lagabreytingu verður þeim heimilt að gera það. En hvert er vandamálið? Það er ekkert samkomulag á milli Íslands og Chile um það að Chile taki við fólki sem við viljum ekki afgreiða umsóknirnar hjá. Þá erum við komin í þá stöðu að það er búið að vísa einstaklingi til ríkis sem íslensk stjórnvöld geta ekki flutt viðkomandi til. Það er nefnilega ekki hægt að flytja fólk nauðungarflutningum til annarra ríkja nema þau hafi þar gildar heimildir til komu og dvalar eða samkomulag ríki á milli ríkjanna, einhvers konar endurviðtökusamkomulag. Í ofanálag gilda þarna ekki ákveðnir varnaglar sem Dyflinnarreglugerðin slær þó við því að fólk sé endursent milli landa á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í Dyflinnarreglugerðinni eru nefnilega ýmis mjög góð og mikilvæg ákvæði varðandi t.d. einingu fjölskyldunnar. Það eru forgangsákvæði sem kveða t.d. á varðandi fylgdarlaust barn — það ríki þar sem foreldrar þess dvelja. Ef þau eru einhvers staðar í Evrópu þá skal það ríki afgreiða umsóknina og svoleiðis. Það eru ákveðnar kröfur um móttöku og, getið hvað; það eru tímafrestir. Það eru tímafrestir á ríki að framfylgja ákvörðuninni.

Ef Útlendingastofnun kemst t.d. að þeirri niðurstöðu að vísa eigi einstaklingi til Svíþjóðar vegna þess að Svíþjóð beri ábyrgð á umsókninni samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, nokkuð algeng staða, þá hafa íslensk stjórnvöld, frá því að lokaúrskurður er kveðinn upp, sex mánuði til að flytja viðkomandi þangað. Það er ekkert svona: „nema ef hann tefur málið sjálfur“. Eina undantekningin, það eina sem rýfur þennan tímafrest er náttúrlega ef viðkomandi er fluttur eða ef viðkomandi lætur sig hverfa. Það er eini þátturinn sem rýfur þennan frest. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þau sem semja Dyflinnarreglugerðina gera sér grein fyrir því að þetta eru þvingaðir flutningar. Þau átta sig á því að það er ekki hægt að ganga út frá því að umsækjandi sé rosalega mikið til í að vera fluttur og þá er það bara á ábyrgð ríkisins að flytja þig og það er bara þannig samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.

Þetta gerir það að verkum að það er mun auðveldara að túlka þessi ákvæði. Þetta er einfalt: Lét viðkomandi sig hverfa? Stundum getur það reyndar verið. Það getur reyndar líka orðið vafasamt — vissu stjórnvöld hvar hann var? Útlendingastofnun hefur týnt fólki sem er í umsjá hennar sjálfrar þannig að það getur svo sem alveg komið upp, en mun fátíðara en með svona, hvað á að segja, lögfræðilegum klúðurákvæðum eins og verið er að reyna að búa til hér varðandi það hvenær viðkomandi telst hafa tafið mál sitt. Þetta allt inni í Dyflinnarreglugerðinni. Það er í rauninni mjög þróað kerfi. Þó að sú er hér stendur sé algjörlega mótfallin því í rauninni, hugmyndafræðinni á bak við það, er það gott kerfi sem slíkt. Ekkert slíkt kerfi gildir um öll hin ríkin í heiminum sem Útlendingastofnun verður með þessu ákvæði heimilt að vísa fólki til. Það þýðir að ekki er hægt að flytja fólk til þessara ríkja. Og hvað gerist þá? Annar syllutryllir. — Ég óska eftir að fá að fara aftur á mælendaskrá.