Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hef verið að fara í gegnum mikilvæga umsögn frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Ég var komin þangað þar sem ég var í raun að taka undir með Mannréttindastofnuninni sem segir að það sé óhjákvæmilegt, með leyfi forseta, „að löggjafinn taki skýra afstöðu, að undangengnu efnislegu mati, til þess hvort skilyrðum stjórnarskrárákvæða sé fullnægt“.

Áfram segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Í þessu samhengi verður að vísa sérstaklega til nýfallins dóms Hæstaréttar 26. okt. 2022 í máli nr. 20/2022. Þar gagnrýnir Hæstiréttur að í frumvarpi til breytinga á lögum um lax- og silungsveiði sé, líkt og í frumvarpi því sem hér er til umsagnar, tekið fram að ekki hafi þótt tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Um þetta segir Hæstiréttur: „[…] Við undirbúning að setningu laga nr. 50/2015 virðist því ekki hafa verið litið til þýðingar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að þessu leyti þótt ríkt tilefni væri til. […] Við breytingar á verkefnum veiðifélaga með lögum nr. 50/2015 sinnti löggjafinn því ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur.“

Áfram segir í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi er í athugasemdum með frumvarpinu tekið fram að breytingartillögur séu „í samræmi við löggjöf og framkvæmd annar staðar á Norðurlöndum“ (um 6. gr.), „umgjörð annarra Evrópuríkja“ (um meginefni frumvarpsins), „að fyrirmynd annarra Evrópuríkja“ (um endurtekna umsókn). Þessi tilgreining fyrirmynda frumvarpsins er með öllu ófullnægjandi í ljósi þess að útfærsla og framkvæmd reglna á réttarsviðinu er að ýmsu leyti fjölbreytt á milli ríkja. Ef vísa á til fyrirmynda frá öðrum ríkjum er rétt að tilvísun fylgi þar sem útskýrt er til hvaða ríkja er vísað og hvort öll Evrópuríki eða öll Norðurlönd hafi samræmt viðkomandi reglu eða framkvæmd. Ef Norðurlönd hafa innleitt framkvæmd sem er önnur en í öðrum Evrópuríkjum er rétt að tekin sé afstaða til þess hvers vegna frumvarpshöfundar telja aðra leiðina ákjósanlegri en hina. Án slíkra útskýringa eru óljósar tilvísanir til erlendra laga ekki gagnlegar við mat á efni frumvarpsins.“

Ég tek heils hugar undir þetta. Þetta er reyndar mjög algengur galli á lagasetningu og sér í lagi á röksemdum sem koma frá hæstv. dómsmálaráðherra, Jóni Gunnarssyni, hann gerir þetta mjög oft. Hann segir t.d. um rafbyssurnar að það sé svo svakalega góð reynsla af notkun rafbyssa á Norðurlöndunum en fæst svo ekki til að vísa í nein nákvæm dæmi og fæst ekki til að skila inn gögnum um hvaða reynslu hann er tala eða neitt því um líkt. Þannig að þetta er svona, hvað á ég að segja, frekar algeng taktík sem er notuð til að ljá einhverjum ákvörðunum einhvers konar lögmæti án þess að það sé neitt á bak við það.

Áfram höldum við í umsögn Mannréttindastofnunar, en hún gerir e 2. gr. frumvarpsins einmitt að umtalsefni, en ég hef verið að fara ansi ítarlega yfir hana í umfjöllun minni um þetta mál:

„Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skv. 7. gr. laganna sæti ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skuli greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar.“

Þetta er einmitt eitt af þessum atriðum sem skerða verulega málsmeðferðarréttindi flóttafólks og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands vekur, rétt eins og aðrir umsagnaraðilar, athygli á þessu atriði sérstaklega. — Ég sé að mér endist ekki tími til að fara yfir það í þessari ræðu og óska því eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.