Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Lokaorð hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar minntu mig á spurningu sem kom upp á internetinu fyrr í dag þegar einhver hafði orð á því — þeirra orð — að það væru bara Píratar á þingi sem stæðu vörð um mannréttindi. Þá spyr einhver: Mannréttindi hverra? Því var svo sem svarað af einhverjum öðrum, ég þurfti ekkert að blanda mér í þetta samtal, en þessi spurning vakti mig til umhugsunar: Mannréttindi hverra? Vegna þess að mannréttindi eru bara mannréttindi. Mannréttindi eru allra og það að standa vörð um mannréttindi er að standa vörð um mannréttindi. Punktur. Mannréttindi hverra skiptir í raun minnstu máli þó að sagan hafi sannarlega sýnt að alltaf, hverju sinni, þarf að vera með fókus á hópana sem sitja eftir af því að einhvern veginn skolast þetta til í framkvæmd stjórnvalda og hugum fólks. En við höldum því til haga að mannréttindi eru bara mannréttindi, það er bara svoleiðis.

Ég var hér í óðaönn að fara yfir 8. gr. frumvarpsins, b-lið 8. gr., sem fjallar um heimildir Útlendingastofnunar til að vísa umsókn frá og vísa fólki til einhverra landa þar sem Útlendingastofnun þykir sanngjarnt og eðlilegt að viðkomandi dveljist. Það er ekki einu sinni hægt að segja „að flytja“ vegna þess að þau munu ekki geta gert það. Til að setja þetta í einhvers konar samhengi ætla ég bara að búa til einhvers konar dæmi. Setjum upp dæmi ef þessi lög fari í gegn. Hingað leitar kona sem er ríkisborgari í Venesúela og hún sækir um vernd vegna þess að þar ríkir óöld og öryggisleysi og sannarlega er ekki hægt að synja henni um vernd vegna þess að það ríkir óöld og erfitt ástand í Venesúela. En Útlendingastofnun segir: Heyrðu, þú átt systur í Chile, þú ferð bara þangað. Okkur finnst að þú ættir bara að fara þangað og sækja um dvalarleyfi þar. Segjum sem svo að þessi kona fái lokaúrskurð um að hún eigi að fara til Chile af því að Útlendingastofnun finnst sanngjarnt og eðlilegt að hún dveljist þar. Hún er ekki með heimild til komu, hún er ekki með heimild til dvalar þar en Útlendingastofnun las einhvers staðar á einhverri vefsíðu chilesku útlendingastofnunarinnar að hægt væri að sækja um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla. Ímyndum okkur það. Ókei. Konan fær úrskurð. Segjum sem svo að hún segi bara: Já, heyrðu, ég skal bara taka þessu og ég mun aðstoða ykkur við að reyna að koma mér úr landi og fara til Chile. En hún fær ekki dvalarleyfi eða það verður eitthvert vesen. Þá, samkvæmt þjónustusviptingarákvæðinu frábæra í þessu frumvarpi, í 6. gr., fær hún nú að njóta þjónustu áfram. Hún verður ekki sett á götuna af því að hún sýnir samstarfsvilja við það að koma sjálfri sér úr landi. Í hvað stöðu er þessi kona komin? Hún er komin í þá stöðu að vera hérna landlaus á milli kerfa, réttindalaus á Íslandi, réttindalaus alls staðar, getur ekki farið heim, er að reyna að sýna einhvern samstarfsvilja. Getur hún sótt um endurupptöku? Nei, af því að það er búið að afnema heimildina til að sækja um endurupptöku. Getur hún komið með endurtekna umsókn? Já, segjum það. Hún getur lagt fram endurtekna umsókn og formaður kærunefndar útlendingamála úrskurðar einn um það hvort það eigi að fara yfir þetta mál aftur. En það hefur ekkert breyst. Það eru engin ný gögn komin fram í málinu. Það hefur ekkert breyst og í rauninni er ekkert miðað við löggjöfina eins og hún er sem segir að það séu verulega miklar líkur á því að niðurstaðan verði einhvern veginn öðruvísi. Nei.

Hvað erum við að tala um hérna? Við erum bara að tala um að það er verið að búa til kerfi, það er verið að bæta við ákvæðum í lögin, sem eykur líkur á því að hér verði stór hópur fólks sem á engin réttindi. Það er hérna með 10.000 kall á viku frá Útlendingastofnun eða Vinnumálastofnun, býr í einhverju herbergi með ókunnugu fólki, er án dvalarleyfis, án atvinnuleyfis, fær nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, allt sem þarf til að halda í því lífi, en ekki mikið meira en það. Og hvað? Hvaða skilvirkni er í þessu? Ég myndi vilja spyrja hv. þingmenn meiri hlutans: Hvaða skilvirkni er fólgin í þessu? Hvernig á þetta að auka skilvirkni og bæta kerfið og straumlínulaga það? Þetta frumvarp snýst ekkert um það. Það snýst um það að auka heimildir Útlendingastofnunar til að synja fólki um að dvelja í landinu, um afleiðingarnar eða tímann sem það tekur eða kostnaðinn sem er á bak við, það er ekkert pælingin. — Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.