Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Ég hef verið að fjalla um umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands um þetta frumvarp. Við í Pírötum hefðum viljað fá sjálfstætt lögfræðilegt álit frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands um hvort þessi ákvæði í frumvarpinu standist yfir höfuð stjórnarskrá og aðrar mannréttindaskuldbindingar sem Ísland hefur gerst aðili að. En í umsögninni má sjá mjög sterkar vísbendingar og mjög skýrar ábendingar um að frumvarpið brjóti einmitt í bága við bæði stjórnarskrána og mannréttindaákvæði sem Ísland hefur undirgengist að virða. Í því samhengi bendir Mannréttindastofnun Háskóla Íslands á atriði varðandi 2. gr. frumvarpsins, um synjun á efnismeðferð, og ég var bara rétt að byrja á því þegar mínum stutta tíma í þessum ræðustól lauk. Mun ég því halda áfram að rýna í þetta, með leyfi forseta. En á bls. 2 í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands segir um í 2. gr. frumvarpsins:

„Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skv. 7. gr. laganna sæti ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skuli greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar. MHÍ vekur athygli á því að forsenda þess að umsækjandi geti skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála er að viðkomandi hafi öll gögn málsins. Fram hefur komið að Útlendingastofnun“ — sjálf Útlendingastofnun — „áskilur sér a.m.k. 10 daga frest til að afhenda öll gögn.“

Pælið í því; það liggur fyrir ákvörðun og Útlendingastofnun segir: Það getur tekið okkur allt að tíu daga að afhenda þér öll gögn sem varða málið þitt, sem hafa með það að gera hvort þú viljir áfrýja eða ekki. Þá eru fjórir dagar eftir af þessum 14 daga kærufresti sem er sjálfkrafa. (BLG: Tíu virkir dagar?) — Já, það er góð spurning hvort þetta séu tíu virkir dagar eða tíu dagar.

Með leyfi forseta:

„Tímafrekt getur einnig verið að afla gagna annars staðar frá. Það gefur umsækjanda því afar skamman frest til að vinna greinargerð sína, svo skamman að illmögulegt getur verið fyrir umsækjanda að gera fullnægjandi greinargerð og í sumum tilfellum ómögulegt vegna skorts á gögnum. Svo skammur frestur getur að mati MHÍ brotið gegn réttinum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns sem m.a. er tryggður í 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994. Hér er því um umtalsverða skerðingu á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að ræða. MHÍ hvetur Alþingi til að endurskoða þetta ákvæði til að tryggja að grundvallarmannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd séu tryggð.“

Þetta er eitt atriði af mörgum sem Mannréttindastofnun bendir á. Og já, svo að ég rifji nú upp, virðulegi forseti, þá umfjöllun sem er að finna í umsögn Rauða krossins um þetta atriði, þennan kærufrest og málsmeðferð fyrir Útlendingastofnun, þá er það mjög skýrt af umsögn Rauða krossins að Útlendingastofnun sinnir ekki sinni rannsóknarskyldu þegar kemur að því að afla allra viðeigandi gagna um aðstæður viðkomandi umsækjanda um alþjóðlega vernd og neitar raunar umsækjendum oft um nauðsynlega tímafresti til að geta lagt fram viðeigandi gögn máli sínu til stuðnings til þess að geta fengið vottorð sérfræðinga um að þau hafi verið fórnarlömb pyntinga eða hafi orðið fyrir kynfæralimlestingum eða séu jafnvel með áfallastreituröskun eða eitthvað slíkt. Þrátt fyrir lagaáskilnað þar um, skv. 1. mrg. 25. gr. útlendingalaga, og auðvitað rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, þá hefur Útlendingastofnun hreinlega ekki sinnt þessari rannsóknarskyldu að eigin frumkvæði og stendur líka í vegi fyrir því að umsækjendur geti sinnt þeirri skyldu sjálfir. Svo afgreiða þeir þessa umsögn og segja: Ef við breytum þessu þá hefur þú 15 daga í sjálfkrafa kæru, en þú færð ekki gögnin sem þú þarft til þess að búa til greinargerðina um kæruna þína fyrr en að tíu dögum liðnum eftir að kærufresturinn hefst, og þá hefurðu fjóra daga til þess að skrifa greinargerðina þína. Þetta nær auðvitað engri átt, virðulegi forseti. Við hljótum að taka undir það með Mannréttindastofnun Háskóla Íslands að þetta vekur verulegar efasemdir um að þetta standist 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.