153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

skýrsla ríkisendurskoðanda um fiskeldi á Íslandi.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessari skýrslu. Það sem kom ekki fram í máli hennar er sú staðreynd að það var hæstv. matvælaráðherra sem óskaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á þessum málaflokki, óskaði eftir því að slík stjórnsýsluúttekt næði yfir alla stjórnsýslu málaflokksins, allt frá undirbúningi löggjafar og setningu afleiddra reglna til eftirlits með starfsemi fyrirtækja í greininni og fram kom hjá hæstv. matvælaráðherra að henni fannst mikilvægt að fá einmitt Ríkisendurskoðun, stofnun sem nýtur trausts, til að framkvæma þessa úttekt til að tryggja að Alþingi fengi í raun og veru tækifæri samhliða framkvæmdarvaldinu til að fara yfir stöðuna. Á meðan beðið var eftir þessari stjórnsýsluúttekt var dregið úr útgáfu nýrra leyfa.

Hv. þingmaður spyr um mín skilaboð í þessum málum. Ég vil segja það að ég er gríðarlega ánægð með það að hæstv. matvælaráðherra hafi farið af stað í þessa vegferð því það skiptir svo sannarlega máli með tiltölulega nýja atvinnugrein að við fáum þetta heildaryfirlit. Þó að skýrslan sé svört þá getur hún einmitt þess vegna verið gagnleg fyrir okkur til þess að gera hlutina öðruvísi. Ég sé ekki betur, þó að ég hafi ekki setið fundinn í morgun, að þetta verði gríðarlega mikilvægt og gagnlegt plagg inn í stefnumótunarvinnuna sem stendur yfir á sviði fiskeldis og sýnir okkur auðvitað þann lærdóm að þegar atvinnugreinar byggjast upp með miklum hraða, eins og fiskeldið hefur gert, þá situr oft regluverkið og stjórnsýslan eftir, þróast ekki með sama hraða og atvinnugreinarnar sjálfar. Það er lærdómur sem við höfum auðvitað getað dregið af ýmsum greinum.

En svo að skilaboðin séu skýr: Þessi skýrsla er ekki einhver endalok máls. Hún er undirstaðan fyrir frekari vinnu og nú reynir á að það verði einmitt brugðist við með skynsamlegum hætti til allrar framtíðar.